131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Stuðningur við stríðið í Írak.

[15:25]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér komu fram hjá hæstv. forsætisráðherra. Það eru merkileg tíðindi sem maður gat lesið út úr orðum hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, að Alþýðuflokkurinn gamli sé aftur kominn með töluverð ítök í Samfylkingunni og styðji núna veru hersins í Írak. Það hefur maður ekki getað skilið á umræðunum að undanförnu.

Þá spyr maður: Fyrst þið styðjið núna veru hersins í Írak, berið þið ábyrgð á öllu því sem sá her gerir, eins og þið hafið verið að gefa í skyn gagnvart mér og hæstv. forsætisráðherra? Að sjálfsögðu ekki, ekki frekar en við að öðru leyti til þó að þið hafið gefið annað í skyn.

En það er fagnaðarefni og ég vil þakka klókindi hv. þm. Hjálmars Árnasonar að starta þessari umræðu og ná því fram hér að því sé lýst yfir í fyrsta skipti — meðan því er ekki mótmælt — að núna, frá og með þessum tíma, styðji Samfylkingin veru herliðs Bandaríkjamanna, Breta og bandamanna í Írak. Það er mjög merkilegt að þetta skuli hafa náðst fram og ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni þennan laglega hælkrók til að fá þessa niðurstöðu fram.