131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi nýgerðra kjarasamninga.

[15:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru í uppnámi vegna þess að ríkið kemur fram af fullkominni ósvífni við sveitarfélögin. Ríkið hefur stöðugt og með margvíslegum hætti verið að velta byrðum yfir á sveitarfélögin án nokkurs samráðs við þau og neitar svo að skila til baka þeim mörgu milljörðum sem hirtir hafa verið af sveitarfélögunum. Má ætla að um sé að ræða 2–3 milljarða króna og það sem þyngst vegur eru sívaxandi útgjöld vegna húsaleigubóta sem aukist hafa um þriðjung á tveimur árum og skattalagabreytingin frá 2001 sem fjölgaði einkahlutafélögum verulega.

Þessu til viðbótar er um að ræða verulegar skerðingar á tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem mun skipta hundruðum milljóna kr., þ.e. um 300 millj. á þessu kjörtímabili, bara vegna áformaðra breytinga á sköttum. Þá er ótalið hvernig ríkið veltir útgjöldum yfir á sveitarfélögin en vegna mikilla skerðinga á lífeyrisþegum og atvinnulausum á undanförnum árum hafa þessir hópar þurft að leita til sveitarfélaganna. Hefur fjárhagsaðstoð til þeirra blásið út sem aldrei fyrr af þeim sökum.

Það er líka sannarlega athyglisvert að á síðustu sex árum hefur skattbyrði einstaklinga aukist í tekjuskatti og útsvari um 15% en aðeins 1% af því runnið til sveitarfélaganna, þ.e. 700 millj. á sama tíma og ríkið tók til sín 8 milljarða í auknum sköttum.

Félagsmálaráðherra verður að gera sér grein fyrir að áform hans um sameiningu sveitarfélaga eru í fullkominni hættu vegna þess hvernig ríkið hefur ráðist að tekjum þeirra. Sveitarfélögin telja sig þurfa um 5 milljarða viðbótartekjur til að geta sinnt verkefnum sínum en halli í rekstri sveitarfélaganna var um 3 milljarðar á síðasta ári.

Ríkisvaldið ber fulla ábyrgð á því að mörg sveitarfélög þurfa nú að hækka skatta og gjöld á íbúa sína á sama tíma og ríkið hefur svigrúm til skattalækkana. Þetta er fullkomlega óásættanlegt og á þessu ber hæstv. ráðherra ábyrgð.