131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi nýgerðra kjarasamninga.

[15:52]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Umræða, samráð og samningar um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga hafa verið og verða væntanlega viðvarandi viðfangsefni þessara tveggja stjórnsýslustiga.

Nú um stundir er í gangi átak til eflingar sveitarstjórnarstigsins. Í því skyni að sem mestur og bestur árangur næðist voru skipaðar þrjár nefndir til að fjalla um það átak, verkefnisstjórn, sameiningarnefnd og tekjustofnanefnd. Samkvæmt viljayfirlýsingu frá 17. september sem undirrituð var af fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga ber tekjustofnanefnd að fjalla um sveitarfélög og svæði sem standa höllum fæti fjárhagslega. Hún á að skoða ástæður vandans og gera tillögur til úrbóta. Hún mun taka afstöðu til þess hvort rýmka beri núverandi tekjustofna, athuga um nýja tekjustofna, athuga hvort ójafnræði sé á milli sveitarfélaga um tekjuöflun og einnig hvort nýir tekjustofnar til jöfnunarsjóðs, m.a. í tengslum við fækkun undanþágna frá fasteignaskatti, komi til greina.

Bág fjárhagsstaða einstakra sveitarfélaga virðist geta átt sér ýmsar ástæður. Sveiflur í íbúaþróun og breytingar á atvinnulífi ráða miklu en einnig fjárfestingar og almennt hvernig staðið er að rekstri sveitarfélaga. Þess vegna er mikilvægt að tekjustofnanefnd nái að gera sér grein fyrir rótum vandans og móti tillögur sínar samkvæmt því.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur mikið hlutverk varðandi fjármál sveitarfélaga og nú hefur verið ákveðið, samkvæmt þeim tillögum sem samþykktar hafa verið hér á Alþingi við fjáraukalögin, að bæta í sjóðinn 400 millj. kr. Á undanförnum árum hefur verið bætt í sjóðinn án lögskyldu 2,1 milljarði og stefnt er að því að leggja í hann allt að 2,4 milljörðum (Forseti hringir.) til þess að jafna stöðu sveitarfélaganna nú í þessu sameiningarátaki.