131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi nýgerðra kjarasamninga.

[15:57]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Í ljósi nýgerðra kjarasamninga og þess aukna vanda sem kostnaður vegna þeirra skapar sveitarfélögunum vil ég rifja upp að hæstv. félagsmálaráðherra hefur ítrekað látið að því liggja að vanda sveitarfélaganna megi að hluta til rekja til þess að þau hafi ekki nýtt sér tekjustofnana sína.

Í svari við fyrirspurn minni sem hæstv. ráðherra svaraði fyrir tveimur vikum eða svo afsannast þessi kenning alveg. Þar sést að 1.100 millj. vantar upp á að útsvarið sé fullnýtt á árinu 2003 en af þeirri upphæð eiga einungis fimm sveitarfélög, þ.e. Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes, Garðabær og Reykjanes, rúman milljarð, 100 millj. eru eftir í svigrúm handa hinum sveitarfélögunum. Þetta er gjörnýting og sýnir að vandinn er almennur hjá sveitarfélögunum hvað varðar tekjustofnana.

Fasteignagjöldin eru miklu erfiðari til að nýta. Samt er það svo að af þeim 3,6 milljörðum sem upp á vantar að sveitarfélögin nýti sér fasteignagjöldin að fullu eiga sömu áðurtalin sveitarfélög að við bættum Hafnarfirði 2,6 milljarða. Það er því ekki lítil ósvífni og haldlaus rök í málinu að benda sveitarstjórnunum á það með almennum hætti, eins og hæstv. ráðherra hefur margítrekað gert, að hækka gjöldin. Það er létt í vasa fyrir fólkið í Snæfellsbæ, svo að maður taki dæmi, að benda því á að menn geti hækkað gjöldin á Seltjarnarnesi.

Það er fullkomið ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda að útdeila skattbreytingum upp á 22 milljarða án þess að jafna tekjunum um leið á milli ríkisins og sveitarfélaganna. Nú er staðan sú að svigrúmið til skattbreytinga hefur verið nýtt að fullu, a.m.k. ef matarskatturinn kemur til viðbótar.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur núna talað. (Forseti hringir.) Skilaboðin eru þessi: Það á ekki að auka við tekjustofna sveitarfélaganna.