131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi nýgerðra kjarasamninga.

[15:59]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við skulum ekki loka augunum fyrir því að það er fjárhagsvandi hjá mörgum sveitarfélögum og þá sérstaklega á landsbyggðinni. Því hljótum við að fagna þeirri viljayfirlýsingu sem samþykkt var þann 17. september sl. af hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. félagsmálaráðherra og formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem segir að verkefni tekjustofnanefndar séu þau að hún skuli skoða sérstaklega þau sveitarfélög og þau svæði sem standa höllum fæti fjárhagslega, meta ástæður fyrir þeim vanda og gera tillögur sem leitt geti til úrbóta. Jafnframt eru aðilar samkomulagsins sammála um að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er.

Við horfum á mörg sveitarfélög sem glíma við mjög erfiða fjárhagsstöðu. Við getum tekið sem dæmi byggðir við utanverðan Eyjafjörð, Siglufjörð, Ólafsfjörð og Dalvík. Á Ólafsfirði verður ekki farið í neinar opinberar framkvæmdir á vegum bæjarfélagsins á næsta fjárhagsári. Það er alveg ljóst að við svo búið getum við ekki unað, við þurfum að styrkja sveitarfélögin í landinu og því fagna ég viljayfirlýsingunni sem ég vitnaði áðan til.

Hins vegar vil ég nefna það hér að ég tel að aldrei muni ríkja fullt traust milli ríkis og sveitarfélaga á meðan sveitarfélögin hafa ekki aðkomu að lagafrumvörpum er varða fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Staðið hefur yfir reynsluverkefni milli ríkisins og sveitarfélaganna hvað þetta varðar, annars vegar sem snertir félagsmálaráðuneytið og hefur gengið mjög vel og hins vegar umhverfisráðuneytið.

Hæstv. forseti. Það ber að efla sveitarstjórnarstigið í landinu og ég lýsi fullum stuðningi við hæstv. félagsmálaráðherra í þeim efnum. Sterk sveitarfélög standa vörð um sterka byggð og því er hér um mjög mikilvægt mál að ræða. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessum brýna vanda. Sterk sveitarfélög móta sterka byggð og hér er um mjög mikið byggðamál að ræða sem brýnt er að ræða í sölum Alþingis.