131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[16:05]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpi þessu er með því kveðið á um hækkun margvíslegra gjalda í lögum um aukatekjur ríkissjóðs sem flest hver hafa haldist óbreytt að krónutölu frá árinu 1997 eða jafnvel lengur. Lagt er til að gjöldin hækki að jafnaði um 10%, þó þannig að fjárhæðir gjalda standi eftir atvikum á heilu eða hálfu hundraði.

Þessi hækkun er í takt við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár og er talin skila um 200 millj. kr. á ársgrundvelli í ríkissjóð. Til samanburðar má nefna að vísitala neysluverðs hefur hækkað um tæplega 34% frá árinu 1997 til áætlaðs meðalverðlags á mælikvarða neysluvísitölu fyrir árið 2005.

Jafnframt er í frumvarpi þessu kveðið á um eftirfarandi fjögur atriði sem ég vil nefna:

Í fyrsta lagi er lagt til að breytt verði ákvæðum um gjaldtöku vegna vegabréfsáritana til samræmis við skuldbindingar Íslands á grundvelli Schengen-samstarfsins. Eru þær skuldbindingar þess efnis að við allar útgáfur vegabréfsáritana skuli taka sama gjald á svæðinu öllu. Er gjaldið 35 evrur sem samsvarar u.þ.b. 3 þús. kr.

Í öðru lagi er lagt til að fyrir leyfi til niðurjöfnunar sjótjóns beri að greiða 5 þús. kr. eins og fyrir önnur atvinnuréttindi og tengd réttindi. Sú stétt manna sem annast niðurjöfnun sjótjóna hér á landi er fámenn og í hópinn bætist einn nýr á 10–15 ára fresti. Störfin eru hins vegar mikilvæg og krefjast sérnáms og sérþekkingar. Eðlilegt þykir því að slíkir menn hljóti löggildingu til starfans enda er kveðið á um löggildingu þeirra í lögum nr. 74/1938, um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns.

Í þriðja lagi er lagt til að gjald fyrir skráningu erlendra félaga verði hækkað til samræmis við gjald fyrir skráningu hlutafélaga og samvinnufélaga. Gjaldið fyrir skráningu erlendra félaga er í dag 50 þús. kr. en verður 165 þús. eftir þessa breytingu. Rökin fyrir þessari samræmingu eru þau að sérstök vinna hlýst af skráningu erlendra félaga eins og t.d. Evrópufélaga (evrópskra hlutafélaga) og er hún ekki minni en við skráningu innlendra hlutafélaga. Er því lögð til samræming að þessu leyti til.

Í fjórða lagi er lagt til að hjá Umferðarstofu verði 1.500 kr. gjald lagt á númeraplötur á bifreiðar. Hér er eingöngu um breytt fyrirkomulag að ræða og verður kostnaðarverð númeraplatna óbreytt hjá Umferðarstofu og þar með einnig söluverð til bifreiðaeigenda við skráningu.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.