131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[16:10]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér er ekki um það að ræða að aukin gjöld séu lögð á þessa vöru, númeraplöturnar. Eins og þingmaðurinn gat um á þetta mál sér nokkra sögu. Þegar breytt var um númerakerfi hér á bifreiðum, sem mun hafa verið frá og með ársbyrjun 1989 ef ég man rétt, var jafnframt farið inn á þær brautir að framleiða númerin austur á Litla-Hrauni undir handarjaðri fangelsisyfirvalda. Þar með sköpuðust Fangelsismálastofnun ákveðnar sértekjur og fangarnir fengu störf sem að mörgu leyti hentuðu ágætlega á þeim vettvangi. Hins vegar, eins og fram kemur í greinargerðinni, eru sveiflur í fjölda þeirra platna sem seljast á ári hverju og ræður innflutningur bifreiða þar mestu um. Hér er verið að fara út í tiltekna millifærslu í samræmi við það sem áður hefur verið lagt til í fjárlagafrumnvarpi þar sem gert er ráð fyrir að sértekjur Fangelsismálastofnunar lækki um 60 millj. og stofnunin fái þá í staðinn fjárveitingu sem því nemur með beinum hætti. Svo er tilfærsla innan Umferðarstofu sem gerir það að verkum að hið nýja gjald á númeraplöturnar sem rennur þá í ríkissjóð mætir fjárveitingunni sem ég gat um.

Þannig er þessari fléttu lokað og málið vonandi upplýst en hér er ekki um að ræða aukna tekjuöflun, eins og þó var að öðru leyti um að ræða í þessu frumvarpi. Þar er um það að ræða að hækka þessi gjöld almennt um 10 af hundraði.