131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[16:16]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg í umræðu um aukatekjur ríkissjóðs, en það er eitt þriggja frumvarpa sem verða væntanlega rædd í dag, er varða það að auka tekjur ríkisins.

Það er vissulega athyglisvert að við skulum ræða í dag frumvörp sem kalla til baka nokkur hundruð milljónir af skattalækkununum sem voru boðaðar í síðustu viku, og ef mér skjöplast ekki þá er ekki ólíklegt að í dag munum við fjalla um frumvörp sem gera ráð fyrir allt að 700 millj. kr. tekjuauka til ríkisins.

Það sem liggur fyrir í þessu frumvarpi, og stingur aðeins í stúf, og kemur fram í greinargerð með því, er röksemdafærslan fyrir hækkuninni sem mér finnst vert að við tökum aðeins til umfjöllunar. Hún er sú að ástæða sé til að hækka þessi gjöld fyrst og fremst af því að þau hafi ekki hækkað í langan tíma, þ.e. að flest þeirra hafi ekki hækkað frá 1997, þótt einhver þeirra hafi hækkað frá þeim tíma.

En spurningin sem mig langar að varpa fram í umræðuna er hvort sjálfkrafa þurfi að hækka öll gjöld hafi þau ekki hækkað í einhvern tíma, þ.e. hvort fjárþörf ríkisins sé þannig háttað að skylt sé að hækka alla tekjustofna sem hægt sé að hækka hafi þeir ekki hækkað í einhvern tíma.

Það er ekki að ástæðulausu, virðulegi forseti, að ég velti þessari spurningu upp en kannski ekki síst vegna þess að þegar maður ber saman fjárlagafrumvörpin, þ.e. það sem nú er til afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi og var lagt fram 1. október, og fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2004, þá sjáum við tekjuaukningu í þeim upp á ein 7%, þ.e. milli ára. Tekjuaukningin er upp á 7% sem er í raun 2% umfram það sem gert er ráð fyrir í öllum hagvaxtarspám. Þetta þýðir með öðrum orðum, virðulegi forseti, að ríkið tekur nú stærri hluta landsframleiðslunnar til sín en það hefur nokkurn tíma gert áður. Það er því ekki að ástæðulausu að menn spyrji hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé full ástæða til að hækka sjálfkrafa alla tekjustofna einvörðungu vegna þess að þeir hafi ekki verið hækkaðir fyrr. Þetta er spurning sem mér finnst vera ástæða til að ræða hér á hinu háa Alþingi af því að röksemdafærslan fyrir hækkuninni er engin önnur en að þetta hafi ekki hækkað þennan tíma.

Síðan er hægt að velta fyrir sér hvað er verið að hækka og það er ýmislegt, t.d. má nefna dómsmálagjöld. Þau gjöld falla á endanum, oftar en ekki, á þá sem eru verst settir, þ.e. á þá sem ekki geta greitt skuldir sínar og er af þeim sökum stefnt fyrir dómstóla, það eru væntanlega þeir sem þurfa að blæða fyrir þessar hækkanir.

Þess vegna vil ég mótmæla þessari framsetningu, að það eitt skuli réttlæta hækkun að hún hafi ekki orðið í langan tíma, og eins og ég nefndi áðan þegar hæstv. fjármálaráðherra þurfti að bregða sér frá, sérstaklega í ljósi þess að ríkisvaldið er nú að hækka tekjur sínar milli þessara tveggja ára í fjárlagafrumvörpum — því að menn eru hálfsmeykir við að bera annað saman — að í fjárlagafrumvörpum fyrir árið 2004 og 2005 hækka tekjurnar um u.þ.b. 7% sem er verulega umfram hagvöxtinn, sem segir að ríkið tekur nú meira til sín en nokkru sinni. Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, þessi röksemdafærsla ekki ganga upp.

Ég sit í þeirri nefnd sem mun fá málið til umfjöllunar og þá munum við fara mjög vandlega yfir það sem er hér á ferðinni, en maður getur ekki látið hjá líða að vekja athygli á því að bara á þessum degi er hugmyndin sú að tala fyrir auknum tekjum í ríkissjóð upp á — ja ekki fjarri því að dagurinn gæti endað í allt að 700 milljónum eða svo. Þetta er nokkuð annað en ýmsir þingmenn töluðu um í síðustu viku og fögnuðu ógurlega yfir væntanlegum skattalækkunum, en ræddu lítið, hvorki hvað ríkið væri farið að taka miklu meira til sín, né að á leiðinni væru frumvörp sem gerðu fjárhæðirnar sem þá var talað um heldur lægri en þá var um rætt.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu en mun fara vel yfir frumvarpið þegar það kemur til nefndarinnar og þá munum við fara nánar í einstaka liði þess. En ég ítreka það að mér finnst röksemdafærslan sem hér er notuð fyrir þessum hækkunum ekki halda, hvorki vindi né vatni.