131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[16:39]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp um ýmsar gjaldtökur ríkisins. Það er ýmislegt sem vekur furðu þegar maður flettir því, t.d. er á bls. 16 talað um gjöld vegna sérstakrar þjónustu starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Þar í 5. lið er talað um millifærslu fjármuna til og frá útlöndum. Þar er gjaldtaka fyrir millifærslu fyrir allt að 50.000, 3.000, fyrir millifærslu á bilinu 50.000 til 200.000, 7.500 kr. og fyrir millifærslu yfir 200.000 skal greiða 3,75% af millifærðri fjárhæð. Ég bið hæstv. fjármálaráðherra um skýringu á þessum lið og hvort ekki sé fullt tilefni til að endurskoða ýmislegt þar. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði áðan, að ástæða væri til að fara yfir allar gjaldtökurnar í rólegheitum og skoða þær.

Ég vil líka gjarnan benda á að við framsetningu málsins hefði verið eðlilegt að nefna í greinunum strax í upphafi, með einu orði, hvaða gjöld væri átt við í hverjum lið en það kemur svo sem fram í skýringunum á eftir. Almennt eru stóru línurnar í þessu þær að ríkið er að taka inn 200 millj. kr. í auknum tekjum og er liður í gjaldtökum ríkisins, eins og fram hefur komið.

Ef við ræðum þetta í samhengi við það sem við ræddum í fyrra við afgreiðslu fjárlaganna og ég minnist þess hvaða orð ég hafði um það í þessum ræðustól þegar við lögðum upp með það í fjárlagafrumvarpinu á síðasta ári, fyrir árið 2004, að taka inn í ýmsum gjöldum upphæð sem mig minnir að hafi legið á bilinu 3–3,5 milljarðar. Í dag er verið að tala um frumvörp sem búa til tekjur fyrir um 600–700 milljarða. Það vill svo skemmtilega til að þær upphæðir sem voru teknar inn í nýjum málum í fjárlagafrumvarpinu í fyrra og viðbótartekjurnar hér stemma nokkurn veginn við 1% skattalækkun í núverandi fjárlagafrumvarpi, um 4 milljarðar kr. Hvort það sé algjör tilviljun skal ég ekki segja um, en gjaldtökurnar sem verið er að ræða hækka á nokkurra ára fresti, ekki reglulega og fram kemur að frá 1997 eða lengur hafi dregist að uppfæra ákveðin gjöld. Ég hefði almennt talið að ástæða væri til þess að skoða alla gjaldaflokkana og eyða vinnu í það. Vonandi fer hv. nefnd með því hugarfari í vinnuna.

Hæstv. fjármálaráðherra nefndi áðan að taka upp sérstaka gjaldtöku vegna manna sem hefðu réttindi til að meta sjótjón. Það kann vel að vera að það eigi rétt á sér, en ekki held ég að muni mikið um það, hæstv. fjármálaráðherra, þó það bætist við einn á fimm ... (Gripið fram í: Fimmtán.) fimmtán ára fresti. Ég veit því ekki hvort við erum að slægjast eftir miklu í þessa veru, en að sjálfsögðu þurfa að vera til menn á þessu sviði sem geta tekið að sér þau störf og metið þau. Það er út af fyrir sig eðlilegt til samræmingar við annað.

En sá þáttur sem ég held að þurfi að eyða svolítilli vinnu í í nefndinni er að skoða gjöldin og samræmingu þeirra og hvort þau eigi öll enn þá við eða hvort menn eru í sjálfkrafa uppfærslu eins og það sem ég nefndi í 5. lið á bls. 16 í skýringu varðandi gjöld vegna sérstakrar þjónustu starfsmanna utanríkisþjónustunnar, þegar verið er að taka sérstakt gjald til ríkisins fyrir millifærslu á fé.

Hæstv. forseti. Ég tel ástæðu til að nefndin eyði dálitlum tíma í að fara yfir þetta og beri þetta saman til nútímans og raunveruleikans.