131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Lífeyrissjóður sjómanna.

376. mál
[17:18]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Rétt til að svara spurningu hv. þm. þá held ég að í sjálfu sér sé ekki eftir neinu að bíða með að ljúka þessu máli. Það er oft þannig að þegar ákveðnar grundvallarbreytingar í umgjörð eða lagaumhverfi eru á ferðinni getur verið gott að útrýma óvissunni og ljúka slíku máli um leið og það er hægt.

Ég veit ekki betur en að þetta mál sé í góðri sátt við þá sem ráða för í Lífeyrissjóði sjómanna, bæði útgerðarmennina og sjómennina sem hvorir tveggja skipa fulltrúa í stjórn sjóðsins. Ég hef skilið það svo að þeir líti þannig á að það sé hagsmunamál fyrir sjóðinn að hin sértæku lög sem um hann gilda, og sem við þekkjum svo vel á Alþingi vegna breytinga sem við höfum þurft að ráðast í, eins og hv. þm. nefndi, falli brott en í staðinn gildi almenna lífeyrissjóðalagaumhverfið um þennan sjóð eins og alla aðra. Þess vegna hefði ég talið heppilegt að ljúka málinu sem fyrst nema annað komi í ljós í umfjöllun nefndarinnar sem fram undan er.