131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Lífeyrissjóður sjómanna.

376. mál
[17:19]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ákveðnar efasemdir um að við eigum að flýta okkur hratt í þessu máli. Ég verð hins vegar að segja að ég hef ekki kynnt mér síðasta kjarasamning sem sjómenn og útvegsmenn skrifuðu undir alveg út í hörgul en þar var verið að breyta ýmsu er varðar inngreiðslur í lífeyrissjóð o.s.frv. Mér er sagt að það kunni að skipta máli varðandi þessa lagabreytingu hvort það gengur eftir sem þar var undirskrifað. En það vitum við ekki, hæstv., fjármálaráðherra, fyrr en 31. desember. Samningurinn er í atkvæðagreiðslu og við vitum ekki hver niðurstaðan af þeirri atkvæðagreiðslu verður. Þar af leiðandi, ef ég skil málið rétt eftir mínum munnlegu upplýsingum, getur skipt talsverðu máli eins og litið er á þetta mál af hálfu sjómannaforustunnar, hvort við erum tala um lífeyrisumhverfi sem tengist núverandi kjarasamningi sem er í atkvæðagreiðslu eða hvort hann yrði felldur. Meðal annars þess vegna held ég að menn þurfi að skoða málið vandlega og flýta sér ekki um of því að niðurstaðan af þessu er auðvitað sú að samningurinn er í atkvæðagreiðslu og það kann að vera að sá lagarammi sem við erum að ræða hér geti jafnvel haft áhrif á þá atkvæðagreiðslu. Ég held að menn ættu að skoða þetta vandlega og ég sé ekkert í þessu máli sem þurfi að hraða svo mjög að við eigum að lögfesta það fyrir fram án þess að vita þá niðurstöðu.