131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Lífeyrissjóður sjómanna.

376. mál
[17:22]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér í andsvar við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson af því að ég veit að hann býr yfir mikilli þekkingu á málinu og kannski þekkja hann og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, að öðrum þingmönnum ólöstuðum, þetta mál mest af eigin raun. Þeir hafa staðið í kjarabaráttu fyrir sín stéttarfélög og þekkja það. Þess vegna langar mig til að víkja aðeins að því sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom að í lok ræðu sinnar og spyrja: Eru lífeyrissjóðirnir ekki hluti af viðkomandi kjarasamningum með beinum eða óbeinum hætti? Við höfum rætt hér á undanförnum þingum hina miklu fjárvöntun sem er í Lífeyrissjóði sjómanna og haft áhyggjur af því og að það væri hans stærsta vandamál að geta staðið við eðlilegar skuldbindingar og réttindi gagnvart sjómönnum. Sjómenn eru sú stétt sem við vitum að býr við hvað mesta áhættu eins og hv. þm. kom inn á með örorkuna við sjómennskuna. Er það ekki meginmál hvernig hægt er að styrkja Lífeyrissjóð sjómanna eða þann lífeyrissjóð sem um er að ræða, er ekki staðan sú að það vanti fjármagn í hann? Sér hv. þm. nokkuð í þessu frumvarpi um að verið sé að styrkja fjárhag lífeyrissjóðsins?

Hv. þm. kom líka inn á og bar saman Lífeyrissjóð sjómanna og aðra lífeyrissjóði eins og Lífeyrissjóð Austurlands og Lífeyrissjóð Vestmannaeyja, að mig minnir. Er ekki svo að sjómenn eru líka í fleiri en einum lífeyrissjóði? Erum við ekki að taka á einhverju mjög afmörkuðu máli sem hv. þm. dró í efa að við vissum á hvaða vegferð væri? Ég leyfi mér að spyrja hv. þm. aðeins um þessi atriði þar sem ég veit að hann þekkir þessi mál svo vel.