131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Lífeyrissjóður sjómanna.

376. mál
[17:26]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir upplýsingarnar. Þær vekja mann einmitt til umhugsunar um hvort ekki þurfi að taka á málinu með mun heildstæðari hætti. Það má vel vera að þau afmörkuðu lög sem við erum að ræða, um breytingu á Lífeyrissjóði sjómanna, geti á ýmsan hátt verið góðra gjalda verð. En þar er verið að taka á ákvæðum að mínu mati sem hljóta líka að gilda hliðstætt um lífeyrissjóði sjómanna sem eru að taka réttindi samkvæmt öðrum lífeyrissjóðum.

Mér sýnist því mjög brýnt að taka heildstætt á málinu, ekki hvað síst á fjárhagsvanda Lífeyrissjóðs sjómanna og að auka og styrkja rétt sjómanna sem mér finnst eins og ég hef greint í umræðunni að sé allt of veikur fyrir þá, bæði hvað varðar örorkumat eins og hv. þm. minntist á og að þessi stétt verður að hætta störfum mun fyrr á lífsleiðinni. Það sýnir sig að menn verða að hætta sjósókn almennt mun fyrr en menn í öðrum störfum og þess vegna verði þessi lífeyrissjóður að vera sterkur.

Ég vil spyrja hv. þm. áfram hvort ekki séu hliðstæð atriði í öðrum lífeyrissjóðum sem eru með sjómenn innan sinna vébanda og hefði þá verið ástæða til að taka þetta heildstætt, ef hv. þm. veit það?