131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Lífeyrissjóður sjómanna.

376. mál
[17:53]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Já, ég tek undir það, forseti, að það eru fleiri en útgerðir sem njóta þessa. Ég held þó að það hafi verið þannig í upphafi, og enn er það þannig að um milljarður af þessum 1,2–1,3 milljörðum sem ég nefndi áðan er veittur útgerðum fiskiskipa. Hins vegar vitum við líka með þennan tekjuauka eða þennan ríkisstyrk að hann hefur farið í ýmislegt annað, svo sem til jöfnunar, þar á meðal til ríkisfyrirtækja og annarra fyrirtækja sem hafa sett tré á flot eða eitthvað annað það sem á flot kemst og jafnvel þarf ekki að fara á flot. Eins og ég segi njóta fyrirtæki sem ráða menn í landi líka þessa afsláttar.

Menn þurfa ekki að vera sárir yfir því, það er hinn mikli misskilningur sjómanna og leiðtoga þeirra að vera sárir yfir því, þegar um þetta er talað og líta á það sem einhverja árás á sjómenn að segja að þetta sé ekki ölmusa til þeirra. Sögulega er þetta ríkisstyrkur til útgerðarmanna og síðan hefur eitthvað af honum flust annað, á flutningaskipin auðvitað og síðan ýmis önnur skip sem sóttu á þessi mið vegna þess að ríkið reyndist vera viljugt til þess undir stjórn ýmissa hæstvirtra fjármálaráðherra að styrkja fleiri en útgerðirnar einar í staðinn fyrir að fella niður þennan ríkisstyrk til þeirra. Útgerðarmenn hafa ævinlega átt nokkuð auðvelt með að komast upp í bólið til hæstvirtra fjármálaráðherra og til þeirra ríkisstjórna sem hér hafa verið. Það er sem sé að mínu viti kominn tími til að við hættum þessu og förum að taka upp skynsamlegar og eðlilegar reglur sem auðvitað felast í því að þessar tekjur fari inn í launin til sjómanna sjálfra og þar á meðal inn í lífeyrissjóð þeirra.