131. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[18:08]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum. Ég þakka öllum þeim sem greitt hafa fyrir því að veitt væru afbrigði til að málið mætti koma á dagskrá þessa fundar, en efni málsins er þannig að það þarf að hafa hraðar hendur við að afgreiða það í þingsölum eins og allir þingmenn þekkja.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til tvenns konar breytingar í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2005. Annars vegar er lagt til að áfengisgjald á sterku víni hækki um 7%. Hins vegar er lagt til að tóbaksgjald hækki um sömu prósentu, 7%. Gert er ráð fyrir því að tekjuauki ríkissjóðs vegna þessara hækkana geti numið allt að 340 millj. kr. á ársgrundvelli og áætluð áhrif á vísitölu neysluverðs eru talin verða um 0,08%. Áfengis- og tóbaksgjald hækkuðu síðast í lok nóvember 2002 og hefur þróun þeirra gjalda því ekki verið í samræmi við almennt verðlag og hafa gjöldin því lækkað að raungildi síðan þá. Tillaga um hækkun nú er í samræmi við þróun almenns verðlags á síðustu árum en almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um u.þ.b. 7% frá því að gjöldin hækkuðu síðast.

Hækkun gjaldanna mun leiða til um það bil 5,6% hækkunar á útsöluverði sterks áfengis og um það bil 3,7% hækkunar á útsöluverði tóbaks að meðaltali. Í frumvarpinu er ekki lagt til að áfengisgjald á léttum vínum eða bjór breytist frá því sem verið hefur, en það hefur verið óbreytt frá árinu 1998. Af þeim sökum hefur áfengisgjald af þeim tegundum drykkja lækkað að raungildi um ríflega 30%. Frumvarpið miðar að því að lögin taki þegar gildi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.