131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:30]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sem hér talaði og benti á mig fer með ákveðnar rangfærslur. Sá sem hér stendur hefur staðið fyrir því að lækka tekjuskatt á launþega í landinu meira en nokkru sinni hefur verið gert, fella niður eignarskatt, fella niður sérstakan tekjuskatt, lækka erfðafjárskatt o.s.frv., hefur staðið fyrir einhverri mestu kaupmáttaraukningu sem ég hygg að íslenska þjóðin hafi séð á lýðveldistíma. Svo kemur hann hér og segir að ég sé að hækka skatta. Hvers konar vitleysa er þetta?

Síðan bendi ég hv. þingmanni á konkret hækkanir sem flokksmenn hans, undirmenn í Samfylkingunni hafa staðið fyrir og eru óumdeildar, þeir hafa hækkað útsvarið, þeir hafa hækkað fasteignaskatta og þeir eru að hækka gjöld á barnafólk. Það eina sem þessi hv. þingmaður, sem, nota bene, er nú 1. þm. Reykv. n., 1. þingmaður okkar Reykvíkinga, segir er: Ekki benda á mig, þetta er ekki okkur að kenna, þetta er ríkisstjórninni að kenna. — Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega?

Spyrjum að leikslokum. Ég veit ekki betur en leikskólaráð hafi tekið ákvarðanir um að hækka gjöldin á unga fólkið í landinu og þess vegna langar mig til þess að spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Styður þingmaðurinn hækkanir á útsvari hér í Reykjavík, hans kjördæmi? Styður hann hækkun fasteignaskatts hér í Reykjavík og styður hann hækkanir á leikskólagjöldum hér í Reykjavík? Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að segja: Ekki benda á mig.

Þetta eru þrjár einfaldar spurningar sem ég óska eftir að þingmaðurinn geðþekki svari.