131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:32]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég misskildi þetta auðvitað allt saman. Ég taldi að þá kaupmáttaraukningu sem hefði orðið á síðustu tíu árum, eða a.m.k. einhvern lítinn part hennar mætti e.t.v. eigna einhverjum öðrum en hv. þingmanni. Nú kemur hann hingað og segir um sjálfan sig: Hvað hef ég verið að gera? Ég hef verið að hækka kaupmáttinn, segir hv. þingmaður, meira en hefur nokkru sinni gerst.

Ja, miklir menn erum vér. Ég er viss um að hv. þingmaður á eftir að vera lengi í stjórnmálum og örugglega eftir að láta gott af sér leiða. Ég leyfi mér þó að efast um að sú kaupmáttaraukning sem hefur orðið hjá íslensku þjóðinni allar götur frá því að við bárum gæfu til að samþykkja samninginn um EES, sé að öllu leyti hv. þingmanni að þakka. Ég vona að mér leyfist að hafa þá skoðun.

Hv. þm. Ásta Möller innir mig eftir svari við ákveðnum spurningum: Um leikskólagjöldin hef ég sagt og segi það enn: Spyrjum að leikslokum í því máli.

Um útsvarshækkunina þá er það alveg klárt að ég lýsi allri ábyrgð á útsvarshækkun í Reykjavíkurborg, og hugsanlega öðrum sveitarfélögum þar sem sveitarstjórnir neyðast til þess að hækka útsvar, á hendur ríkisstjórninni. (Gripið fram í: Þú segir það.) Það er alveg klárt að verið er að ýta sveitarstjórnum í að hækka útsvarið með því að svelta þau að því er varðar fjárframlög frá ríkisstjórninni. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Gunnar Birgisson hefur lýst þróuninni með sterkari orðum en formaður Samfylkingarinnar. Hann sagði 18. nóvember í ræðu að ef svo færi fram sem horfði og ef ríkisstjórnin kæmi ekki með aukið fjármagn þá blasti við neyðarástand hjá sveitarfélögunum. Það var hv. þm. Gunnar Birgisson, einn þyngsti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á sveitarstjórnarstiginu sem það sagði. (Gripið fram í: Svaraði hann spurningunni?) Það er því alveg ljóst að ég lít svo á að útsvarshækkanir sem menn kunna að ráðast í eru ríkisstjórninni að kenna. (Gripið fram í: Svaraði hann spurningunum?)