131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:37]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp fjallar um að verð á sterkum vínum og tóbaki haldi verðgildi sínu, það þýðir 320 milljónir. En það sem hefur gleymst í umræðunni — hv. þm. Össur Skarphéðinsson tiplaði í kringum það en sagði ekki neitt — er að verð á léttum vínum og bjór breytist ekkert, það er lækkun á þeim vínum.

Samkvæmt ágætis ársskýrslu frá ÁTVR er heildarsala á áfengi u.þ.b. 12 milljarðar. Síðan sagði forstjóri ÁTVR okkur í efnahags- og viðskiptanefnd að um 1/4 væri beinn innflutningur, þannig að áfengisgjald kemur þá af u.þ.b. 15 milljörðum. Þáttur bjórs og léttvína er 10 milljarðar af því. 7% lækkun á áfengisgjaldi af þessum vínum mundi þýða 4–5% lækkun á útsöluverði. Þetta er það sem við erum að tala um, við erum að tala um lækkun á útsöluverði. Þetta þýðir lækkun upp á 400–550 milljónir að raungildi, sem er meira en 320 milljónir og við erum því að tala hér um skattalækkun nettó, þannig að ég átta mig ekki á málflutningi Samfylkingarinnar í málinu. Ég held að menn þurfi að setjast aðeins niður og reikna og sjá tölur.

Auðvitað styð ég að skattur á áfengi sé lækkaður og það sem hér er verið að gera styrkir ferðaþjónustuna.

Frá árinu 1998 er lækkun áfengisgjalds á léttvín og bjór einhvers staðar á bilinu frá 22% upp í 30%, hér er því um verulega breytingu að ræða.

Virðulegi forseti. Ég vildi koma því hér að, að í reyndina er verið að tala um lækkun, lækkun á léttum vínum sem vegur meira en verðlagshækkun á sterkum vínum. Og ég vil segja að nú eru góðir tímar, fjármálaráðherra hefur lagt fram fjárlagafrumvarp með verulegum afgangi, upp á 10–11 milljarða, hér hafa verið skattalækkanir, búið er að lækka erfðafjárskatt niður í 5%, búið að afgreiða hátekjuskatt, hann dettur út eftir næsta ár, það er komið frumvarp um hækkun á barnabótum, afnám eignarskatts. Hver hefði getað ímyndað sér fyrir 7–8 árum að eftir eitt ár borguðum við ekki eignarskatt? Ímyndið þið ykkur byltinguna. Svo eru 4 prósentustig á næstu þremur árum í lækkun á tekjuskatti einstaklinga.

Svo tala menn hér út og suður í þessum málum. Þetta er alveg ótrúlegt. En þetta eru góðir tímar og síðan ég kom á þing 1999 er þetta besta þing sem ég hef setið hingað til og vonandi verða þau jafngóð hér eftir. Virðulegi forseti. Ég vildi draga fram þá hækkun og lækkun sem hefur orðið á víni.