131. löggjafarþing — 43. fundur,  29. nóv. 2004.

Gjald af áfengi og tóbaki.

389. mál
[21:47]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nenni varla að þvarga við hv. þingmann. Hann virðist ekki skilja þetta og maður verður náttúrlega bara að óska þess að honum fari fram og lesi sér til um þetta, hvað er hækkun og hvað er lækkun yfirleitt.

Á næstu árum verður mikill kaupmáttarauki, einhver sá mesti í Íslandssögunni. Það þýðir aukna launaveltu og það þýðir að ríkið fær meiri skatta af henni. Það er mjög einfalt. Aukin velta fyrirtækja skapar aukinn virðisaukaskatt o.s.frv. Það verður því gósentíð bæði fyrir ríkið og þegna þessa lands á næstu árum. Ég held að hv. þingmaður ætti að fagna því að hér er verið að lækka verð á áfengi nettó.