131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:51]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt sem fram kemur hjá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni að þær tölur sem ég nefndi úr skýrslu fjármálaráðuneytisins segja ekki alla sögu. En ég fór með þessar tölur til að vekja athygli á því hvernig staða ýmissa stofnana var eftir níu mánaða rekstur og í því samhengi að velta upp þeirri spurningu sem ég lagði fyrir framkvæmdarvaldið, hvernig á því standi að engin tengsl eru á milli bókhalds og áætlanagerðar.

Eins og fram kom hjá hv. þingmanni þá á eftir að gera ýmsar leiðréttingar. Það er afskaplega sérkennilegt að þessar leiðréttingar skuli yfirleitt vera látnar bíða annaðhvort til loka árs eða jafnvel fram yfir áramót. Það er eðlilegt að þessar leiðréttingar séu gerðar jafnóðum, t.d. varðandi ýmsar tekjur sem stofnanir fá og auðvitað til að laga stöðu þeirra. Einnig varðandi ýmsa svokallaða safnliði sem er útdeilt af ráðuneytum, eins og ég segi, oft og tíðum annaðhvort í lok árs eða að loknum áramótum. Þetta er algerlega ólíðandi varðandi rekstur þessara stofnana vegna þess að forstöðumenn eru settir í þann vanda að vita í raun ekki nákvæmlega hver staða þeirra stofnana er. Samt sem áður er ætlast til þess að forstöðumennirnir reki stofnanirnar miðað við fjárlög hvers árs og það á að gera þá kröfu. En það verður líka að gera þá kröfu til ráðuneytanna, og þá kröfu á undan, að þau hagi sér þannig við framkvæmd fjárlaga að einstakir forstöðumenn í stofnunum viti nákvæmlega hvernig stofnanir þeirra standa hverju sinni. Það er augljóst, miðað við t.d. allan þann tíma sem það tók að fá upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu, að eitthvað mikið er að í upplýsingastreymi innan ríkiskerfisins. Það er eitthvað mikið að þegar menn nota ekki bókhald til þess að reyna að gera áætlanir eins góðar og kostur er. Eins og fram kom í nefndarálitinu þekkist það hvergi í stærri fyrirtækjum eða hjá einu einasta sveitarfélagi að það nýti sér ekki upplýsingar úr bókhaldi við áætlanagerð.