131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:54]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Magnúsi Stefánssyni að ástæða er til þess að bæta alla áætlanagerð í ríkiskerfinu og full ástæða er til þess að gera ráð fyrir því að ríkisstofnanir endurskoði áætlanir sínar þegar líður að hausti til að átta sig á því hvernig til hefur tekist og hvort eitthvað þurfi að lagfæra eða hvort rangt hafi verið áætlað í upphafi.

En slík áætlanagerð verður líka að ná inn í fjárlagagerðina sem slíka. Ekki er nóg að einstakar ríkisstofnanir, eins og við höfum því miður heyrt dæmi um, hafi verið að vanda sig við áætlanagerð sína en síðan nái það ekki alla leið inn í fjárlögin. Það er ástæðan fyrir því að við m.a. höfum verið að tala um að fjárlögin séu allt of mikil glansmynd en úr tengslum við raunveruleikann. Það er vegna þess að þarna vantar öll tengsl á milli. Og það er ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að fjárlaganefnd óski eftir því t.d. við Ríkisendurskoðun að Ríkisendurskoðun skili fjárlaganefnd í byrjun þings, í byrjun október, skýrslu um framkvæmd fjárlaga þannig að farið sé nákvæmlega yfir það hvernig framkvæmd fjárlaga fyrir viðkomandi ár standi að hausti og hægt sé að nýta slíkar upplýsingar bæði varðandi það að auka aðhald gagnvart framkvæmdarvaldinu með auknu eftirliti og einnig til að bæta áætlanagerðina og tryggja, herra forseti, að fjárlög verði þau fjárlög og fái þann sess sem við viljum að þau hafi, þ.e. að þau séu virt á sama hátt og önnur lög og að allar stofnanir fari eftir þeim, en ekki síður og kannski enn frekar að ráðuneyti átti sig á því að fjárlög eru lög og eftir þeim ber að fara og að vanda beri áætlanagerð og alla undirbúningsvinnu varðandi fjárlög á þann hátt að menn ætlist til þess að eftir þeim sé farið.