131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:56]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004. Ég sit í fjárlaganefnd fyrir hönd míns þingflokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og stend að þessu nefndaráliti.

Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004 kemur nú til lokaafgreiðslu við 3. umr. Því er rétt að líta yfir helstu stærðir þjóðarbúsins og fjárlaganna fyrir þetta ár og einnig horfa nokkuð á vinnubrögð og forsendur sem unnið hefur verið eftir við fjárlagagerðina og við framkvæmd fjárlaga á árinu. Fjárlög yfirstandandi árs gerðu ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs næmu um 275,3 milljörðum kr. og heildartekjur yrðu um 282 milljarðar kr. Tekjujöfnuður var því áætlaður rúmir 6,7 milljarðar kr. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2004 með þeim breytingum sem gerðar voru við 2. umr. eru tillögur um aukin útgjöld sem nema um 9,3 milljörðum kr. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkisins á árinu 2004 verði um 284,6 milljarðar kr. Samkvæmt frumvarpinu og endurskoðaðri tekjuáætlun er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 9,3 milljarða kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs. Samtals er því gert ráð fyrir því að tekjur ársins verði um 291,3 milljarðar kr. Auknar skatttekjur má að mestu rekja til aukins bifreiðainnflutnings, áhrifa aukinnar einkaneyslu á innheimtu virðisaukaskatts og góðrar afkomu fyrirtækja á árinu 2003. Tekjujöfnuður er því áfram áætlaður um 6,7 milljarðar kr. Því miður hefur reynslan kennt okkur að þessar niðurstöðutölur muni geta breyst. Í því sambandi er nærtækast að nefna reynslu síðustu ára. Sérstök ástæða er til að hafa áhyggjur af auknum viðskiptahalla sem er talinn verða 7–8% af landsframleiðslu á þessu ári, eða nærri 70 milljarðar kr., og fara ört vaxandi á næstu árum þannig að hann verði 13–14% af landsframleiðslu 2006 eða um 140 milljarðar kr. á ári. Bein áhrif stóriðjuframkvæmda eru aðeins um 40% af þessum halla. Yfir 60% hallans er aukinn innflutningur almennrar neysluvöru og þjónustu. Gjöld á vöruinnflutning og viðskiptahalla verða því aðaltekjustofn ríkisins á næstu árum fari fram sem horfir. Skuldir þjóðarbúsins, skuldir einstaklinga og fyrirtækja eru orðnar með því mesta sem gerist meðal þjóða heimsins og þær eru alvarleg ógnun við efnahagslegan stöðugleika.

Í ágætri skýrslu sem BSRB hefur unnið og birti nýverið, um skuldir Íslendinga og stöðu þjóðarbúsins, kemur fram að erlendar skuldir þjóðarbúsins námu í árslok 2003 um 1.160 milljörðum kr. Ágrip af þeirri skýrslu er birt sem fylgiskjal með þessu framhaldsnefndaráliti þar sem raktar eru skuldir þjóðarbúsins og hvernig þær skiptast á einstaklinga, ríkisvald, fyrirtæki og sveitarfélög. Þar kemur fram að skuldir ríkissjóðs hafa ekki aukist og hafi jafnvel aðeins minnkað, þótt það sé háð genginu á hverjum tíma. Heildarskuldir þjóðarbúsins hafa aftur á móti aukist verulega og er svo komið, eins og kemur fram í skýrslunni, að íslenska þjóðarbúið er að verða þriðja skuldugasta þjóðarbú heimsins. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri þróun.

Um helmingur erlendra skulda okkar er bundinn í evrum. Þar eru vextir í lágmarki en til að átta sig á stærð þess sem um er að ræða má nefna að verði 1% vaxtahækkun á evrusvæðinu munu skuldbindingar þjóðarbúsins aukast um 5 milljarða kr. á ári. Af því sést hve gríðarlega viðkvæmt efnahagslífið er gagnvart þeirri skuldasöfnun sem þjóðin í heild hefur stofnað til, sérstaklega erlendis.

Upp á síðkastið hefur fjármálaráðuneytið lagst gegn því að fulltrúar stofnana og annarra sem fá starfsfé sitt að hluta eða öllu leyti frá ríkinu komi á fund fjárlaganefndar og geri grein fyrir starfsemi sinni, fjárhagstöðu og rekstrarþörf. Sú þróun er alvarleg ógnun við stöðu Alþingis og störf og verkefni þingmanna og þingnefnda. Það er þar með einnig ógnun við lýðræðið.

Eitt brýnasta verkefnið sem bíður Alþingis og fjárlaganefndar er að endurskoða alla vinnu við fjárlagagerðina, marka framkvæmdarvaldinu sinn bás í þeirri vinnu og tryggja eðlileg og lýðræðisleg vinnubrögð við fjárlög. Þar þarf að styrkja stöðu Alþingis í fjárlagavinnunni þannig að þegar fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til fjárlaga á Alþingi og því hefur verið vísað til fjárlaganefndar sé öll frekari vinna og afgreiðsla þess á ábyrgð nefndarinnar og þingsins.

Til að fjárlaganefnd geti sinnt hlutverki sínu sem skyldi þarf að bæta upplýsingastreymi til hennar. Nefndin verður að fá betri upplýsingar um stöðu stofnana og áætlaða stöðu þeirra við árslok. Aðeins með slíkum upplýsingum getur nefndin tekið ábyrga afstöðu og ákvarðanir um fjárveitingar til einstakra stofnana. Jafnframt er nauðsynlegt að bæta möguleika fjárlaganefndar á að meta á sjálfstæðan hátt forsendur útgjalda og tekjuhliðar frumvarpsins. Fjárlagafrumvarpið er lagt fram og unnið á efnahagsforsendum fjármálaráðuneytisins. Það er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og mótast af væntingum hennar og brellum. Fjárlaganefnd hefur eins og áður sagði litla möguleika á að leita annarra viðhorfa eða meta öryggi efnahagsforsendna fjármálaráðuneytis. Þess vegna er mikilvægt að styrkja stöðu Alþingis og nefnda þess. Það er hægt að gera með stofnun sérstakrar efnahagsskrifstofu þingsins sem gæti lagt sjálfstætt mat á stöðu og þróun efnahagsmála og fjármála ríkisins og verið nefndum þingsins til ráðgjafar við vinnu að fjárlögum.

Varðandi fjárhagsstöðu stofnana í A-hluta í lok ársins kemur fram í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu um fjárhagsstöðu þeirra í janúar til september að 91 stofnun var yfir 4% viðmiðunarmarkinu, þ.e. útgjöld miðað við fjárheimild voru umfram fjögur prósent. Þannig var t.d. staða Háskólans á Akureyri neikvæð um rúmar 190 millj. kr. í lok september og staða 15 framhaldsskóla neikvæð um 624 millj. kr. Þá má og nefna að staða 20 heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana var neikvæð um tæpar 994 millj. kr. í lok september.

Það er reyndar athyglisvert að það eru stöðugt sömu málaflokkarnir sem virðast líða við fjárlagagerðina og fjárveitingar, þ.e. skólar, framhaldsskólar sérstaklega og háskólarnir, og síðan heilbrigðisstofnanir.

Eigi að taka þennan lista alvarlega er ljóst að margar stofnanir verða í miklum fjárhagsvanda við lok ársins. Margt bendir til þess að fjárveitingar séu ekki í samræmi við umsvif og lögbundin verkefni margra þeirra. En vegna skorts á upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu um væntanlega raunstöðu þessara stofnana um áramót er ekki hægt að taka á málum þeirra í tíma við fjáraukalagagerðina eins og skylt væri þó. Úr því að fjárlaganefnd getur ekki fengið upplýsingar um rekstrarstöðu stofnana, hvernig getur þá fjármálaráðuneytið eða hlutaðeigandi fagráðuneyti sinnt með eðlilegum hætti eftirlits- og ráðgjafarhlutverki sínu, t.d. kallað forstöðumenn þessara stofnana á fund til sín og rætt við þá um hvernig þeir ætli að bregðast við þeirri fjárhagsstöðu og rekstrarstöðu sem stofnanirnar standa frammi fyrir? Það gefur augaleið að þegar upplýsingar um framvindu mála liggja ekki fyrir er erfitt að ræða þau mál á raunsæjum grunni.

Minnisblaðið sem við fáum frá fjármálaráðuneytinu sýnir að það er eitthvað verulega athugavert við áætlanagerðina sjálfa. Það er gott að samþykkja hallalaus fjárlög að hausti en á uppsöfnuðum fjárhagsvanda stofnana verður að taka í fjárlögum næsta árs.

Ég vil í þessu sambandi vísa til umsagnar Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaganna. Þar er bent á að stofnanir fara með halla ár eftir ár inn í árið á eftir og að ekki sé tekið á þeim vanda. Skera þarf af þessum halla af því að A-hluta stofnanir eiga ekki lagalegan rétt á að bera halla á milli ára og eru á ábyrgð ríkisins hvað það varðar. Það er því brot á fjárreiðulögum að haga málum þannig ár eftir ár hjá sömu stofnunum. Það er ljóst að eitthvað er að, að fjárveitingar eru ekki í samræmi við rekstur og umfang eða þá einhver önnur brotalöm sem ætti fyrir löngu að vera búið að taka á.

Í umræðum á þingi í haust hefur einmitt verið bent á hve erfið fjárhagsstaða sveitarfélaganna er. Þótt gerð hafi verið tillaga á fjáraukalögum um að bæta 400 millj. kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að koma til móts við sveitarfélög í sérstökum vanda — það er ástæða til að fagna því framlagi — þá er ljóst að leysa þarf vanda sveitarfélaganna til framtíðar. Fjárhæðin sem bætt er í jöfnunarsjóðinn er reyndar allt of lág til að mæta brýnasta vanda þeirra. Samband sveitarfélaga hefur sagt að 700 millj. kr. til 1 milljarður kr. þyrfti að bætast inn í sjóðinn í ár til að bæta þar úr og koma til móts við brýnasta vanda sveitarfélaganna.

Það verður að fara yfir og laga tekjustofna sveitarfélaganna þannig að þau geti staðið undir lögbundinni þjónustu. Sveitarfélögin eiga ekki að þurfa að vera undir náð og miskunn ríkisvaldsins komin á hverju ári eða nauðbeygð til að selja arðbærustu eignir sínar, eins og stjórnvöld hafa ráðlagt þeim að gera.

Herra forseti. Ég flyt breytingartillögu við fjáraukalagafrumvarpið og legg til að bætt verði þótt ekki væri nema 250 millj. kr. til viðbótar í jöfnunarsjóðinn til að mæta þeim bráðaerfiðleikum sem mörg sveitarfélög standa frammi fyrir. Annars eru þau nauðbeygð til að skera niður þjónustu og selja eignir sínar, hitaveitur, skóla, mannvirki o.s.frv. Það er fullkomið neyðarbrauð og ætti reyndar ekki að vera heimilt að beita sveitarfélögin slíkum þvingunum. Ábyrgðin á þessum verkefnum er ríkis og sveitarfélaga þótt verkum sé skipt. En ábyrgðin á þessum verkefnum á að vera sameiginleg. Þá á ekki annar aðilinn að svelta hinn til neyðar, eins og gert hefur verið gagnvart mörgum sveitarfélögum í landinu.

Eins og oft áður endurspeglar fjáraukalagafrumvarpið óvönduð vinnubrögð meiri hlutans við fjárlagagerðina frá árinu áður. Margar nauðsynlegra leiðréttinga sem hafa verið gerðar með fjáraukalögum voru fyrirsjáanlegar. Ég get nefnt framhaldsskólana og héraðsdómstólana sem hafa fengið viðbót á fjáraukalögum. Þó var fyllilega fyrirséð í fyrrahaust að það fé mundi vanta. Því miður dugir framlagið sem framhaldsskólarnir fá engan veginn til að mæta þeim þörfum sem þeir stóðu frammi fyrir þó að það sem gert er sé nokkur bót.

Annar minni hluti lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og meiri hlutanum vegna óvandaðrar vinnu við fjárlagagerðina á síðastliðnu ári og rangrar forgangsröðunar. Tekjuöflun ríkissjóðs færist í síauknum mæli í þjónustugjöld og hlutfallslega aukna skattheimtu á almennu launafólki og lágtekjufólki. Á sama tíma er skattbyrðinni létt af fjármagnseigendum, fyrirtækjum og hátekjufólki. Vinstri hreyfingin – grænt framboð berst fyrir öðrum áherslum. Hún leggur áherslu á jöfnun lífskjara og velferð allra. Skattkerfinu á að beita til að afla hinu opinbera nægilegra tekna til að standa undir samneyslu þjóðfélagsins og öflugu velferðarkerfi. Skattastefnan á að fela í sér tekjujöfnun og að byrðunum sé dreift með sanngjörnum hætti.

Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir framhaldsnefndaráliti sem ég stend að við 3. umr. fjáraukalaga. Fylgiskjöl með framhaldsnefndaráliti mínu eru í fyrsta lagi grein eftir mig og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, sem birtist í Morgunblaðinu 29. sept. 2004 sem bar yfirskriftina „Sveitarfélögin svelt til hlýðni“. Þar er rakin erfið staða sveitarfélaga og hvernig ríkisvaldið beitir þau stöðugt harðræði í samskiptum, í verka- og tekjuskiptingu.

Í öðru lagi er fylgiskjal með nefndarálitinu frétt um skýrslu BSRB um skuldir þjóðarbúsins sem birtist í Morgunblaðinu 27. nóv. 2004.

Þriðja fylgiskjalið er kafli úr skýrslu BSRB sem birtist í síðustu viku. Kaflinn ber heitið „Skuldir Íslendinga“ og þar er rakin í stuttu máli þróun skulda íslenska þjóðarbúsins. Þær eru greindar eftir því hvort þær eru ríkis, einstaklinga, sveitarfélaga eða fyrirtækja og hvar þær skuldir eru teknar erlendis.

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af skuldasöfnun þjóðarbúsins í heild erlendis. Eins og ég nefndi áðan mundi vaxtahækkun á evrusvæðinu um 1% þýða um 5 milljarða kr. aukningu á skuldbindingum okkar þar.