131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:17]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vissi alveg að við vorum að ræða hér fjáraukalög og fjárlög þess árs sem er að líða núna en ég gat ekki heyrt betur en að hv. þingmaður væri að ræða fjárlögin í ár og blanda því saman.

Hvað varðar svör hans við spurningu minni um að ríkið hafi hvatt sveitarfélögin til að selja eigur sínar urðu þau heldur einkennileg. Þar ræddi hann um Orkubú Vestfjarða og ég veit ekki betur en að sveitarfélögin sjálf hafi óskað eftir þessu. Ekki veit ég til þess að ríkið hafi verið að skipta sér af því að Hveragerði hefur selt sína hitaveitu, að öll sveitarfélögin á Suðurnesjum eru saman í Hitaveitu Suðurnesja, að Ölfus hafi selt sína hitaveitu og svo mætti lengi telja. Þar hefur ríkið ekkert skipt sér af. Það er sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaganna og auðvitað haga þau sínum málum eins og þau telja best.