131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:22]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar. Að sjálfsögðu gerir maður ráð fyrir að ráðuneytin fari yfir málin með stofnunum sínum. Það sem ég var að vekja athygli á er hversu góðar forsendur þeir hafa til að fara yfir málin saman þegar þær tölulegu upplýsingar sem hljóta að eiga að vera mikilvægur þáttur í því að meta rekstrarstöðu stofnana liggja ekki fyrir. Það er a.m.k. búið að vera mjög erfitt fyrir fjárlaganefnd að fá fram tölur um milliuppgjör hjá stofnunum miðað við 1. september og einnig ýmsar aðrar lykiltölur til að meta stöðuna.

Það var því mat mitt að úr því að fjárlaganefnd á svona erfitt með að fá þessar tölur frá fjármálaráðuneytinu og þær bókhaldsupplýsingar sem eru nauðsynlegar hljóti að vera jafnerfitt fyrir ráðuneytin að fá þær.

Ég tek svo undir með hv. þingmanni, það er eitt brýnasta verkefnið að tryggja aðgang fjárlaganefndar og þingsins að grunnupplýsingum sem nefndinni er nauðsynlegt að hafa við ákvörðun einstakra fjárlagaliða og við fjárlagagerðina í heild. Þar má svo sannarlega betrumbæta.