131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:24]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Hér erum við búin að fara í umræðum áður vel yfir þetta frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004. Þó held ég að full ástæða sé til að fara aðeins betur yfir það sem hér er lagt fram og velta fyrir sér stöðu ríkisfjármálanna almennt út frá þeim upplýsingum.

Forsendur fjárlaganna þekkjum við vel. Á bls. 51 í fjáraukalögunum eins og þau voru lögð fram á sínum tíma kemur fram að það er ansi mikil breyting á þjóðhagsstærðum frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2004. Það er búið að fara vel yfir það í fyrri umræðum, þá miklu þenslu sem er í gangi og þá miklu breytingu sem er á þjóðhagsstærðunum á milli ára. Ég sé í sjálfu sér ekki mikla ástæðu til að eyða löngum tíma í það.

Auðvitað sjáum við í fjáraukalögunum sem verið er að leggja fram að þensla er mikil, tekjur aukast hér um rúma 9 milljarða samkvæmt frumvarpinu eins og það liggur fyrir núna. Gjöldin aukast reyndar nánast um það sama þannig að fjáraukalögum er skilað með 8,9 millj. kr. halla eins og frumvarpið lítur út.

Eins og fram kom í nefndaráliti hjá 1. minni hluta fjárlaganefndar óskuðum við eftir upplýsingum um stöðu einstakra stofnana miðað við 30. september sl. vegna þess að mat okkar er að það sé alveg nauðsynlegt fyrir okkur að fá slíkar upplýsingar til að við getum áttað okkur á stöðu stofnana og hvert stefnir í fjármálum ríkisins. Þetta eru nauðsynlegar upplýsingar til að gera sér grein fyrir því sem við erum nú að ræða og hvort fjáraukalög taki á þeim vanda sem við blasir á mörgum stöðum, og einnig og ekki síður hvort um ofrausn sé að ræða í fjárveitingum á stöku stað.

Það verður að segjast eins og er að það hefur tekið afar langan tíma, eins og fram hefur komið hér í umræðum, að fá þessar upplýsingar. Þær voru ekki handbærar þegar 2. umr. fór fram, bæði um fjáraukalögin og eins um fjárlög næsta árs. Við höfðum fullan skilning á því í 1. minni hluta að það gæti tekið einhvern tíma að ná út úr bókhaldskerfum þeim upplýsingum sem um var beðið og að þær lægju ekki á lausu á þeim tíma sem beiðni okkar var komið á framfæri en að við skyldum ekki fá lista í hendur yfir stöðu einstakra stofnana fyrr en á fundi í gær tel ég óskiljanlegt með öllu.

Enn erfiðara er í sjálfu sér að skilja af hverju sá listi sem við fengum í hendur var settur fram með þeim hætti að nánast engin leið var að átta sig á hvernig rekstri einstakra stofnana er háttað innan ársins og að upplýsingarnar sem fram eru settar ná engan veginn því markmiði sem þeim er ætlað að ná, að fjárveitingavaldið geti glöggvað sig á því með nýjustu haldbæru upplýsingum hvernig stofnanir standa sig í því að halda sig innan fjárheimilda og hvort efni sé til að athuga rekstur sérstaklega eða þá fjárheimildir sem augsýnilega hrökkva engan veginn til að láta í té þá þjónustu sem lögbundin er á sviði einstakra stofnana.

Ég verð að segja eins og er, hæstv. forseti, að ég er orðinn hundleiður á því með hvaða hætti brugðist er við fullkomlega eðlilegum óskum okkar sem erum hér í minni hluta um upplýsingar varðandi fjárlagagerðina. Þar er ekki við hv. formann fjárlaganefndar að sakast, Magnús Stefánsson, sem allur er af vilja gerður til að óska eftir þeim upplýsingum sem við förum fram á. Umbeðnar upplýsingar koma oftast seint og þegar þær berast virðist oft og tíðum eins og reynt sé að takmarka þær eins og hægt er og helst að þær séu óskiljanlegar hverjum þeim sem ber þær augun.

Þessu verður að breyta. Við getum ekki búist við markvissum skoðanaskiptum um upphæðir og aðferðir meðan svona er í pottinn búið. Það getur engum fundist eðlilegt að upplýsingar sem óskað er eftir í upphafi fjárlagavinnunnar hér á Alþingi berist okkur daginn fyrir lokaumræður um efnið. Þetta er algjörlega til skammar, virðulegi forseti, og gengur ekki upp.

Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra beiti sér fyrir því að á þessu verði breyting þannig að kjörnir fulltrúar minni hlutans hér á Alþingi geti sinnt því eftirlitshlutverki sem okkur er ætlað. Ég átta mig ekki heldur á geðleysi fulltrúa meiri hlutans í fjárlaganefnd ef upplýsingastreymi til þeirra er háttað með sama hætti og þeir geta þá ekki frekar en við í minni hlutanum rækt hlutverk sitt sem skyldi. Þeir eiga að setja þrýsting á framkvæmdarvaldið um breytt vinnubrögð. Ef þeir gera það ekki eru þeir að mínu mati ekki að rækja skyldur sínar með eðlilegum hætti.

Það kom ekki fram í listanum sem við fengum í gær hver upphafsstaða stofnana hefði verið í byrjun árs þó að sú upphafsstaða væri svo sett inn í fjárheimildir viðkomandi stofnunar til hækkunar eða lækkunar eftir því hvort stofnunin átti inni fjárveitingar frá fyrri árum eða hvort hún hefði keyrt fram úr heimildum sínum. Þar með, samkvæmt þeim lista sem við fengum, var ekki hægt að skoða reksturinn innan ársins og listinn sagði því litla sögu um núverandi rekstur stofnana. Mér fannst reyndar hv. formaður fjárlaganefndar, Magnús Stefánsson, staðfesta það í andsvörum fyrr í umræðunni að menn ættu ekki að taka of mikið mark á þeim lista sem við höfum fengið í hendur, hann væri nú þannig fram settur og þær upplýsingar væru þannig sem á honum eru að okkur bæri að varast að draga of miklar ályktanir af þeim tölum sem fram væru settar.

Ég spyr hv. formann fjárlaganefndar: Er það ásættanlegt að í gær fengum við lista þar sem verið er að fá okkur í hendur upplýsingar sem við báðum um um stöðu stofnana ríkisins miðað við lok september á þessu ári og að hann sé settur fram með þeim hætti að hv. formaður þurfi að koma í andsvar í pontu til að vara okkur við því að draga of miklar ályktanir af því sem þar kemur fram og að upplýsingarnar séu settar svo villandi fram að nánast sé ekki að marka þær eins og við fáum þær í hendur?

Við óskuðum eftir því strax við embættismenn fjármálaráðuneytisins þegar þeir lögðu fram þennan lista á fundum fjárlaganefndar að við fengjum upphafsstöðu inn á listann til þess að hann gerði eitthvað gagn og við gætum borið þessa hluti saman. Þær upplýsingar fengum við klukkan hálfellefu í morgun. Hv. þingmenn geta gert sér í hugarlund hversu nákvæm yfirferð er möguleg fyrir okkur fulltrúa fjárlagavaldsins að fara yfir allar stofnanir ríkisins frá þeim tíma sem við fengum listann í hendur þannig að hægt var að skoða hann af einhverju viti og þangað til umræðan hófst hér í dag. Við höfðum heila þrjá klukkutíma til að fara yfir þessar upplýsingar, heila þrjá klukkutíma til að setja okkur inn í stöðu stofnana, til að ræða það hér hvort þau fjáraukalög sem verið er að setja hér fram tækju á stöðu stofnana eins og hún er í lok árs eða á þeim vanda sem hugsanlega gæti komið í ljós í þessum tölum. Heila þrjá klukkutíma, herra forseti, höfðum við til þess að kynna okkur efnið.

Ég reyndi samt eins og ég mögulega gat að rúlla yfir þennan lista og kynna mér hvort ekki væri hægt með góðum vilja að fara í gegnum þessar upplýsingar þannig að maður sæi hvar einstakar stofnanir eru staddar í rekstri sínum og eins til að sjá hvort í fjáraukalögum sem hér er verið að leggja fram sé komið að einhverju leyti til móts við stöðu stofnana sem eiga í vandræðum eða hvort verið sé að taka fjármuni af stofnunum sem hefðu of mikla peninga í þessum fjáraukalögum.

Maður veltir því fyrir sér þegar maður sér lista sem þennan og hve margar stofnanir eru að reka sig í lok september umfram fjárheimildir, hvað ráði því hvort stofnanir fá bættan halla eða ekki. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér var ómögulegt að koma auga á nokkra reglu þar sem ég gat farið yfir og séð að stofnanir væru komnar svo og svo mikið fram yfir og að það þýddi að það leiddi inn í fjáraukalögin að þar væru tillögur um svo og svo mikla fjármuni til þeirra stofnana. Ég gat ekki séð á nokkurn hátt að kerfisbundið væri unnið heldur virtist geðþótti ráða.

Ég ætla að reyna aðeins að rúlla í gegnum listann, með leyfi forseta, og drepa svona á því helsta sem vakti þar athygli mína og áhuga. Listinn byrjar á æðstu stjórn ríkisins. Þar kemur fram að embætti forseta Íslands hóf árið 2004 með halla sem það embætti hafði þá dregið með sér undanfarin ár upp á tæpar 37 millj. kr. Í lok september er áætlað að halli embættisins sé 62 millj. kr. tæpar. Þá veltir maður fyrir sér hvernig meiri hluti fjárlaganefndar ætli að taka á þessum vanda í fjáraukalögum. Ekki á nokkurn hátt. Það er engin tillaga í fjáraukalögum um auknar fjárveitingar til embættis forseta Íslands. Ef þetta heldur áfram sem þarna lítur út þá sýnist manni að í upphafi næsta árs, í upphafi ársins 2005, komi embættið jafnvel til að draga með sér halla upp á 80 milljónir eða þar yfir inn í næsta ár. Þá geta menn rétt ímyndað sér hvort mikið sé svo að marka það að bera saman fjárheimildir embættisins og eyðslu þess á því ári sem fram undan er.

Aftur á móti Alþingi, sú stofnun þar sem við störfum, byrjar þetta ár mun betur en embætti forseta Íslands. Alþingi á 81 milljón inni í plús með sér í upphafi árs. Það lítur þannig út að eftir níu mánaða rekstur eigi Alþingi enn þá fyrningar upp á 65 millj. kr. Svo ber maður það saman við það hvað verið er að leggja til í fjáraukalögum. Jú, meiri hluti fjárlaganefndar leggur til tæpar 100 milljónir í fjárauka, 100 milljónir í aukafjárveitingu til Alþingis sem þó stendur þetta vel miðað við þennan lista.

Ríkisendurskoðun aftur á móti byrjar árið með rúmum 15 milljónum í mínus. Það er talið að í lok september sé sá halli um 19 millj. kr. og meiri hluti fjárlaganefndar tekur á því í tillögu sinni og leggur til að Ríkisendurskoðun fá 15 milljónir í fjárauka þannig að hún verði nokkurn veginn á pari eftir árið.

Ef við kíkjum á forsætisráðuneytið þá átti forsætisráðuneytið í heimildum sem það flytur með sér milli ára 193 millj. kr. Ekki einn einasti liður af þeim sem undir forsætisráðuneytið heyra er í mínus eða ber með sér halla til næsta árs. Það er alveg sama hvort við lítum á upphafsstöðu ársins eða áætlaða stöðu í lok september. Reyndar er einn liður áætlaður með halla í lok september á forsætisráðuneytinu. Það er liður sem kallaður er Ýmis verkefni. Sá liður átti 121 milljón í upphafi árs. Heildaruppsöfnuð fjárheimild með þessum 120 millj. kr. fyrir fyrstu níu mánuði árs er 294 milljónir. En það er búið að eyða 296 milljónum þannig að maður velti fyrir sér þegar maður sér að þessi 121 milljón er horfin sem til var í upphafi árs í Ýmis verkefni í forsætisráðuneytinu, í hvað þeim fjármunum hafi verið eytt. Kannski getur hv. formaður fjárlaganefndar útskýrt það fyrir okkur hér á eftir.

Í menntamálaráðuneytinu er annað uppi á teningnum en í forsætisráðuneytinu. Menntamálaráðuneytið fer ekki með eins mikið nesti inn í þetta ár og forsætisráðuneytið gerði. Menntamálaráðuneytið er í mínus í fjárheimildum í upphafi ársins 2004 upp á 652 millj. kr. Áætlað er að í lok september standi stofnanir menntamálaráðuneytisins í mínus upp á tæpan milljarð, 936 milljónir. Þegar maður fer að skoða þennan lista yfir stofnanir menntamálaráðuneytisins áttar maður sig fljótlega á því að ansi margir liðir, segja má meiri hluti stofnana sem undir menntamálaráðuneytið heyra, eru í mínus í lok september á þessu ári.

Það er eitt reyndar sem er nokkurn veginn rauður þráður í gegnum allar tillögurnar í fjáraukanum. Það er að aðalskrifstofur ráðuneytanna eru meira og minna allar að fá fjáraukatillögur, flestar hverjar frekar smáar, en samt sem áður á bilinu 3 til 10 milljónir svona til að sinna hinum og þessum gæluverkefnum sýnist manni.

Skoðum Háskólann á Akureyri. Í upphafi ársins fer Háskólinn á Akureyri af stað með 127 millj. kr. í mínus. Það er talið í lok september að þessi mínus sé um 190 millj. kr. En ég gat ekki séð neinar tillögur um fjáraukaheimildir til Háskólans á Akureyri. Það sama gildir með Tækniháskólann. Hann er á svipuðum slóðum.

Námsmatsstofnun byrjar þetta ár samkvæmt þessum lista með mínusstöðu. Allar fjárheimildir ársins 2004 duga ekki til þess að sú stofnun byrji á núlli. Á þessu eru skýringar eðlilega. Þegar eftir var leitað við embættismenn fjármálaráðuneytisins kom í ljós að einhvers staðar í menntamálaráðuneytinu væri til safnliður sem héti Grunnskólar og það ætti eftir að færa 40 milljónir af þessum safnlið yfir á Námsmatsstofnun sem væri nú búin að semja samræmd próf og leggja í ýmsan kostnað sem því fylgdi. Þá hlýtur maður að spyrja eins og reyndar hefur verið spurt fyrr í umræðunni: Af hverju eru slíkir safnliðir, eða þeir hlutar þeirra sem tilheyra verkefnum sem til falla fyrr á árinu, ekki skuldaðir út á þessi verkefni þannig að þessi staða sjáist og að safnliðirnir séu ekki einhvers staðar inni í ráðuneytum liggjandi allt árið og svo fari menn svona einhvern tímann milli jóla og nýárs að velta fyrir sér hvort ekki sé nú rétt að fara að skipta þessum safnliðum út á þessar stofnanir sem eru búnar að reka sig með bullandi halla meira og minna allt árið?

Framhaldsskólana ætla ég að taka, virðulegi forseti, alveg sér hérna á eftir því það er kapítuli út af fyrir sig hvernig farið er í að áætla á framhaldsskólana og hvernig þeirra þörf fyrir fjármuni er mætt.

Utanríkisráðuneytið hefur þetta ár með mínus upp á 205 millj. kr. þrátt fyrir mjög hagstætt gengi. Talið er að þessi mínus í lok september sé tæpar 300 milljónir. Þar ekki sama sagan eins og kannski í forsætisráðuneytinu þar sem flestir liðir byrjuðu á plús og flestir liðir litu út fyrir að vera með plús í lok september. Nei, nánast allt sem undir utanríkisráðuneytið heyrir er í mínus. Í upphafi ársins er aðalskrifstofa utanríkisráðuneytisins með 63 millj. kr. mínus. Hann er orðinn 78 milljónir í lok september. Ýmis verkefni hjá utanríkisráðuneytinu byrja með 42 milljónir í mínus, hafa aðeins náð að klóra í bakkann og eru með 29 milljónir í september. Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli er með 50 milljónir í mínus, 74 milljónir í lok september. Á því er tekið í fjárauka.

Sendiráð Íslands, þessi stofnun sem enginn veit hver er, eða réttara sagt: Þetta er stofnunin sem öll sendiráð okkar erlendis og hérlendis falla undir. Það er engin leið fyrir okkur í fjárlaganefnd að gera okkur grein fyrir hver kostnaðurinn er í raun við hvert sendiráð heldur er eitt stykki sendiráð Íslands. Hugsum okkur ef það væri einn liður fyrir spítala Íslands, einn liður fyrir framhaldsskóla Íslands. Hvernig í ósköpunum ættum við á Alþingi sem förum með fjárlagavaldið að geta áttað okkur á hvað sé að gerast á hverjum stað?

Sendiráð Íslands byrjar árið með 89 millj. kr. mínus. Í september er talið að mínusinn sé orðinn 181 milljón miðað við fjárheimildir. Í fjáraukanum er jú tekið á þessu. Sendiráði Íslands er — nei, í fjáraukanum er ekki tekið á þessu heldur er verið að taka af sendiráði Íslands 70 milljónir vegna gengisþróunar. Það bætist því við þann rekstrarvanda sem kemur fram í þessum lista og maður veltir fyrir sér enn og aftur hvað ráði þegar teknar eru ákvarðanir um hvað eigi að bæta og hvað ekki og hvort verið sé að reka stofnanir á eðlilegan og ábyrgan máta.

Landbúnaðarráðuneytið byrjar í plús í upphafi árs um 7 millj. kr. en frávikið í lok september, mínusinn, er orðinn 182 milljónir. Þar eru atriði inni sem maður veltir fyrir sér. Þar eru t.d. Ýmis verkefni sem byrja árið með 28 millj. kr. mínus og eru komin í 40 millj. kr. mínus í lok september. Af hverju eru ekki gerðar neinar tillögur um aukafjárveitingar til að mæta svona miklu sukki?

Yfirdýralæknir dregur með sér halla frá ári til árs samkvæmt því sem hér kemur fram. Yfirdýralæknir byrjar árið með 54 millj. kr. halla. Samkvæmt listanum er hallinn í lok september orðinn 92 millj. kr. Maður hefði haldið að í ekki stærra embætti væri tiltölulega gegnsætt að sjá hvernig reka bæri það embætti eða hvort fjárveitingar dygðu fyrir þeim lögbundnu skyldum sem lagðar eru á embættið og þá kæmi í fjáraukanum einhvers konar leiðrétting á því. Jú, það er tillaga í fjáraukanum um fjárveitingu á yfirdýralækni upp á 7 millj. kr. til það mæta hinum 90 millj. kr. halla.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur árið með 37 millj. kr. halla og er kominn í 72 millj. kr. halla samkvæmt listanum í lok september.

Upptalningin mín sýnir hversu algengt það er að stofnanir byrji starfsemi með gamlan halla sem ekki er tekið á, halla sem lögin heimila ekki að sé færður á milli ára, en vaxandi halli er færður ár eftir ár í bókhaldi stofnananna sem þær þurfa síðan að reyna með einhverju móti að berjast við, en ná að sjálfsögðu aldrei með þeim fjárveitingum sem þeim er ætlað að berjast við viðvarandi krónískan halla.

Í sjávarútvegsráðuneytinu er staðan ekki slæm í upphafi árs. Þar eru til fjárveitingar upp á 237 millj. kr. og eru enn þá til í lok september upp á 100 millj. kr.

Maður veltir því fyrir sér með liðinn Ýmis verkefni sem á 46 millj. kr. í upphafi árs og 41 millj. kr. í lok september, af hverju þar kemur aukafjárveiting upp á 6,8 millj. kr.?

Hafrannsóknastofnun er aftur á móti samkvæmt listanum í halla upp á 92 millj. í september. Komið er til móts við það í fjáraukalögum með 50 millj. kr. framlagi. Aftur á móti á Fiskistofa, eftirlitsbatteríið í sjávarútveginum, 142 millj. kr. í upphafi árs í ónotaðar fjárheimildir og 123 millj. í lok september. Samt er verið að bæta þeirri stofnun upp núna að hún missi veiðieftirlitsgjaldið upp á 270 millj. og gerð tillaga um það í fjáraukalögum að ríkið greiði 270 millj. í rekstur Fiskistofu og sýnist mér þá að staða þeirrar stofnunar verði ansi drjúg.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið stendur vel í upphafi árs, 530 millj. kr. í fjárveitingar sem þeir bera með sér í poka yfir áramótin, og talið að fjárheimildir séu í plús 242 millj. kr. í lok september. Reyndar eru þarna dæmi sem við þekkjum öll, gamlir kunningjar ef við getum orðað það svo. Héraðsdómstólarnir byrjuðu árið með 36 millj. kr. halla, fyrirséðum halla segjum við sem vorum í fjárlaganefnd því það var margbúið að kynna okkur þá stöðu. Komið er til móts við það í fjáraukalögum nú með 35 millj. kr. fjárveitingu.

Ríkislögreglustjóri á aftur móti 75 millj. kr. í upphafi árs. Hann er kominn í mínus eftir skipulagsbreytingarnar upp á tæpar 12 millj. kr. í lok september, en fjáraukalögin bæta það líka upp með 113 millj. kr. fjárauka.

Ýmis löggæslumál, þar er fært að fjárheimildir í upphafi árs séu 93 millj. kr. og um 60 millj. kr. eru eftir í lok september fá 51 millj. kr. í fjáraukalögum. Það virðist því ekki vera nein regla á því með hvaða hætti stofnunum ríkisins er bættur halli. Mér virðist heldur ekki í þeim vinnubrögðum sem ég hef séð að það sé neitt kerfisbundið eftirlit af hálfu fagráðuneytanna þar sem þau fara yfir stofnanirnar með einhverju móti. Jú, reynt er að draga út úr bókhaldi ríkisins einhverjar upplýsingar sem sýna stöðu, eins og listann sem ég er með fyrir framan mig, en það virðist afskaplega lítið við hann gert þegar loksins er búið að ná honum út.

Félagsmálaráðuneytið er í upphafi árs með 227 millj., en með mínus 89 millj. í september.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið er náttúrlega alveg sér kapítuli þegar kemur að fjárveitingum og aukafjárveitingum. Þar eru stofnanir að dragast með áralangan vanda ár eftir ár án þess að nokkuð sé tekið á honum. Í upphafi árs 2004 eru heimildir sem vantar til að standa á núlli 1.120 millj. kr. Það er sem sagt lítið í pokanum sem heilbrigðisstofnanirnar bera yfir áramótin, eins og sumar aðrar stofnanir gera, heldur er stórt gat á þeim poka sem þau eru með í höndunum og það vantar enn 1.120 millj. kr. í upphafsstöðu stofnana heilbrigðisráðuneytisins í upphafi árs. Það hefur frekar sigið á verri veginn á árinu, eins og við var að búast, því staðan í lok september á stofnunum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins er mínus 1.652 millj. kr.

Tryggingastofnun ríkisins byrjar árið með 138 millj. kr. halla á efnahagsreikningi sínum. Talið er að hann sé í lok september upp á 107 millj. kr. Hér er verið að reka eitt mikilsverðasta fyrirtæki sem ríkið rekur og heldur utan um alveg geysilega miklar fjárhæðir fyrir okkur og hefur afskaplega marga skjólstæðinga sem þangað leita og þurfa á þjónustu að halda. Það er því full ástæða til þess að stofnunin sé rekin þannig að hún sé ekki í fjárhagsvanda í rekstri sínum, sjálfum rekstri Tryggingastofnunar, og maður hefði haldið að komið væri til móts við þetta að einhverju leyti í fjáraukalögum. En, jú, gerð er tillaga um að bæta Tryggingastofnun ríkisins í rekstur sem hóf árið með 138 millj. kr. halla, 18,2 millj.

Annar gamall kunningi sem við þekkjum öll er Landspítali – háskólasjúkrahús. Óbættur halli í upphafi árs 760 millj. Áætlaður halli í lok september 1.300 millj. Þar er aðeins komið inn í með fjáraukalögum og tekið úr sárasta kulið með nýrri fjárveitingu upp á 667,7 millj. kr.

Varðandi heilbrigðisstofnanirnar má segja að það sé svipað og með framhaldsskólana. Þó ég hafi ekki verið nema tvö ár við fjárlagagerðina er ég farinn að tala um gamla kunningja, vegna þess að í þau tvö skipti sem ég hef fjallað um málið er verið að fjalla aftur og aftur um sömu stofnanirnar sem við vitum að eiga við verulegan vanda að stríða. En í þeim veruleikaflótta sem mér sýnist ríkisstjórnin vera í neitar hún algjörlega að viðurkenna vandann og neitar því oft á tíðum að vandi sé fyrir hendi. Alla vega er enginn vilji til að taka á vandanum þó hann sé auðsær öllum sem hann vilja sjá.

Heilsugæslan í Reykjavík byrjaði árið með mínus 236 millj. á efnahagsreikningi sínum, hefur lítið getað gert til að klóra í það og er í septemberlok í mínus 210 millj. Ég þykist þess fullviss hvað varðar framhaldsskólana og eins varðandi heilsugæslustöðvarnar og heilbrigðisstofnanirnar, að einhver úr meiri hluta fjárlaganefndar muni koma og benda þeim þingmanni sem hér stendur og er nýr og nánast óreyndur enn þá, að hægt sé að taka af fullt af safnliðum, það sé fullt af pottum í ráðuneytunum sem eigi eftir að deila út í september, þannig að þetta sé nú ekki alveg eins slæmt og þingmaðurinn heldur fram.

Ég segi bara, herra forseti, horfandi á mínustölu eftir mínustölu í þeim stofnunum sem heyra undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, að menn verða að fara að taka sér tak og deila út þessum pottum oftar en í lok árs, jafnvel ekki fyrr en árið er liðið, eins og hv. framsögumaður 1. minni hluta sagði áðan. Þetta eru kannski janúarverkin hjá fjármálaráðuneytinu að deila út pottunum.

Fjármálaráðuneytið er ekkert illa haldið. Er í upphafi árs með 581 millj. í plús, en reyndar komið í 270 millj. í mínus í lok september og er þar ýmsu um að kenna.

Fjársýsla ríkisins, sem átti 145 millj. kr. í upphafi árs í pósitífan höfuðstól, er núna 40 millj. umfram. Þegar maður veltir fyrir sér hvað gerist hjá Fjársýslu ríkisins kemur upp gamall kunningi. Hafa hv. þingmenn heyrt talað um hugbúnaðarkerfi ríkisins í sölum Alþingis? Hafa hv. þingmenn heyrt talað um að ríkið verji hundruðum og tæpum þúsund milljónum á ári í rekstur hugbúnaðarkerfa? Kerfa sem menn beita svo fyrir sér þegar kallað eftir upplýsingum þannig að ekki sé hægt að ná út úr þeim upplýsingum. Þau eru ekki betri en það þegar til á að taka og um þetta er búið að gera samninga til fjölda ára. Ef við horfum á fjárlagafrumvarpið árið 2005 er gert ráð fyrir að til ársins 2008 séu greiddar að lágmarki um 800 millj. kr. í samninga vegna hugbúnaðarsamninga ríkisins og talað sérstaklega um í þeim kafla að komi til þess að samningarnir renni út á tímabilinu verði þeir örugglega endurnýjaðir. Svo góð er reynslan eða svo góð er gíslingin sem fyrirtækin hafa ríkið í með kerfinu.

Varðandi Fjársýslu ríkisins er það að gerast í fjáraukalagafrumvarpinu að verið er að færa 181 millj. úr stofnkostnaði varðandi hugbúnaðarkerfi í launagreiðslukerfi, tekjubókhaldskerfi, bókhalds- og áætlunarkerfi ríkisins og fjárhags- og starfsmannakerfi. Verið er að færa 181 millj. kr. úr stofnkostnaði í rekstur til að reka kerfin sem er kannski ekki vanþörf á. Ég gagnrýni ekki að menn reyni með einhverju móti að fá kerfin til að virka, því við þekkjum það í fjárlaganefnd að langflestir forstöðumenn stofnana og embættismenn ríkisins sem komu þangað báru fyrir sig að það væri ekki nokkur leið að eiga við þessi kerfi, það gengi seint og illa að fá þau til að virka eins og þau ættu að gera.

Í samgönguráðuneytinu var höfuðstóllinn 31 millj. kr. í upphafi árs og er 170 millj. kr. í plús í lok september, samkvæmt listanum.

Vegagerðin var í upphafi árs öfug á höfuðstólum um 705 millj. kr., en innan ársins hefur verið tekið á því þannig að í lok september eru það 95 millj.

Um iðnaðarráðuneytið er lítið annað að segja en að þar voru til tæpar 250 millj. kr. í upphafi árs hjá stofnunum iðnaðarráðuneytisins og eru um 145 millj. kr. eftir í lok september. Viðskiptaráðuneytið var með 74 millj. í upphafi en er komið í mínus 6 millj. í lok september samkvæmt listanum sem lagður var fram.

Þar er helst liður sem heitir Ýmis verkefni, sem full ástæða er til að leita skýringa á, vegna þess að sá liður átti tæpar 17 millj. kr. í upphafi árs í höfuðstól. Uppsöfnuð fjárheimild með því sem var í fjárlögunum var um 35 millj. kr., en í liðnum Ýmis verkefni hefur viðskiptaráðuneytið eytt 68 millj. eða 33 millj. umfram fjárheimildir í lok september, 95,22%. Maður hefði haldið að eitthvað stórt og óvænt hefði komið upp á sem yrði tekið á í fjáraukalögum. En viti menn, liðurinn er í fjáraukalögum, en á móti hallarekstrinum upp á 33 millj. kr. er gerð tillaga upp á 4,5 millj. kr. til sérstakra ýmissa verkefna.

Hagstofa Íslands er með mínus 23 millj. kr. í upphafi en mínus 28 millj. kr. í lok september. Hún viðheldur halla sínum, hefur fjárveitingar til þess.

Umhverfisráðuneytið er með 468 millj. kr. í plús, 534 millj. kr. í plús í lok september. Það er aðallega Úrvinnslusjóður sem skapar þá góðu stöðu. Hver er staða sjóðsins? Hann á 260 millj. kr. í upphafi árs. Hann er með uppsafnaða fjárheimild, þ.e. það sem er á fjárlögum og áætlað í Úrvinnslusjóð, plús þessar sem hann átti í byrjun ársins, upp á 728 millj. kr. Þetta er bólginn sjóður. Hann greiddi út 222 millj. kr. í september þannig að í honum eru rúmar 500 millj. kr.

Væri ekki rétt að skoða hvort rétt sé að safna í þennan sjóð á sama tíma og margir aðrir sjóðir ríkisins eiga ekki fyrir skuldbindingum sínum, t.d. Ábyrgðasjóður launa, Atvinnuleysistryggingasjóður, Fæðingarorlofssjóður o.s.frv.? Hver veit nema Úrvinnslusjóður gæti greitt eitthvað úr þeim vanda?

Náttúrufræðistofnun Íslands er í upphafi árs með 39 millj. kr. í öfugan höfuðstól og 99 millj. kr. í lok september. Í fjáraukalögum er gert ráð fyrir aukafjárveitingum til hennar upp á 39 millj. kr.

Ég hef, frú forseti, farið yfir listann sem við fengum frá ráðuneytinu í gær og höfðum beðið þess ansi lengi. Við í minni hluta fjárlaganefndar höfðum ætlað okkur að fara mjög nákvæmlega í stöðu einstakra stofnana til að gera okkur grein fyrir hver staða þeirra raunverulega væri, hvernig þessum stofnunum gengi að reka sig á þeim fjárveitingum sem þær fá. Eins og ég sagði í upphafi vildum við einnig skoða hvort einhverjar stofnanir fengju hærri fjárveitingar en þörf er fyrir og söfnuðu upp fyrningum eða hagnaði á hverju ári á efnahagsreikninga sína.

Tíminn sem við höfðum til að gera okkur almennilega grein fyrir þeirri stöðu sem við blasir var þrír klukkutímar. Það er allt og sumt, frú forseti. Við fengum ekki listann yfir stöðu stofnana í upphafi árs fyrr en klukkan hálfellefu í dag. (Gripið fram í: Og enn vantar einn dálk.) Enn vantar einn dálk sem beðið var um.

Við óskuðum eftir því, þegar við báðum um upplýsingarnar í upphafi fjárlagavinnunnar, að fá ekki aðeins stöðuna í upphafi árs, stöðuna í rekstrinum fyrstu níu mánuðina, heldur einnig áætlaða útkomu hverrar stofnunar í lok árs. Þannig hefðum við áætlun fagráðuneytanna eða stofnananna sjálfra um hvernig þær mundu enda þetta ár. Þannig hefðum við einhverjar raunupplýsingar til að bera saman við fjáraukalögin og velta fyrir okkur hvort tekið sé á vanda stofnana sem eiga við vanda að etja vegna þess að fjárveitingar séu það lágar miðað við lögbundið hlutverk þeirra að þar þurfi að gera breytingu.

Auðvitað gerum við í minni hlutanum, alveg eins og meiri hlutinn í fjárlaganefnd, okkur grein fyrir því að það að stofnun sé rekin með halla þýðir ekki að hann skuli bæta sjálfvirkt og engar refjar. Það getur vel verið að eitthvað sé að í rekstri stofnananna. En þá þurfum við að hafa lykiltölur til að fara ofan í það og skoða. Getur verið að svo sé þegar það gerist ár eftir ár hjá sömu stofnunum. Hallinn safnast upp og á þessum lista eru stofnanir sem í upphafi árs, þrátt fyrir fjárveitingu ársins, eru í mínus og eiga ekki einustu krónu með gati, ekki túskilding, til rekstrarins allt árið. Samt er haldið áfram án nokkurra breytinga, engu breytt og haldið áfram. Ef þetta er ábyrg fjármálastjórn þá hef ég aldrei séð aðra eins ábyrgð í slíkum málum.

Ég ætla að beina sjónum heim í kjördæmi mitt og velta fyrir mér einu litlu dæmi. Gerð var breyting hjá heilbrigðisstofnunum á Suðurlandi. Þær voru sameinaðar í eina heilbrigðisstofnun. Sú sameining átti sér stað 1. september á þessu ári. Í fjáraukalagafrumvarpinu eru því fjárveitingar frá hverri heilsugæslustöð og sjúkrahússinu á Selfossi og allt látið sameinast til þeirrar einu stofnunar. Þetta er allt fært saman.

Samkvæmt þeim lista sem við höfum undir höndum getum við séð hvaða heimanmund Heilbrigðisstofnun Suðurlands fær. Ég sé ekki betur, þegar ég legg saman plúsana og mínusana, því að sumar heilsugæslustöðvar voru í plús þegar sameiningin átti sé stað og aðrar í mínus, en að þessi nýja stofnun hefji starfsemina með mínus 51 millj. kr. í heimanmund. Og það verður örugglega erfitt að reka stofnunina sameinaða, með öllum þeim kostnaði sem því fylgir að koma slíkri stofnun saman, ef ekki er tekið tillit til þessa í fjáraukalögum. Ég get ekki séð að svo sé gert heldur sé heimanmundurinn í raun mínus 51 millj. kr.

Eins og ég hef áður sagt þá veltir maður því fyrir sér í fullri alvöru hvað veldur því að sumar stofnanir fá bættan halla sinn en aðrar ekki. Ég ætla enn að halda mig heima í kjördæmi. Ef ég skoða Heilbrigðisstofnun Suðurnesja kemur í ljós að hún byrjar starfsárið með 76 millj. kr. halla og eftir níu mánuði er hún komin í 135 millj. kr. halla.

Mér er vel kunnugt um að innan þeirrar stofnunar var farið í mikla vinnu við að fara yfir reksturinn og móta framtíðarstefnu hennar. Það var gert í nefnd á vegum hæstv. heilbrigðisráðherra sjálfs. Ég sat í þeirri nefnd sjálfur og veit að ráðherrann hefur staðfest þá sýn sem fram var sett í lokaskýrslu nefndarinnar. En fjárveitingar hafa ekki fylgt. Þetta gerist allt of oft, að það er engin leið til að reka stofnanir miðað við þær fjárveitingar sem þær fá, jafnvel þótt umfang rekstrarins sé þekkt og einmitt eins og fagráðherrann eða ríkisvaldið vill að það sé og hefur skrifað upp á að það eigi að vera.

Er nema von að forstöðumenn þeirra stofnana séu í hálfgerðum vandræðum með að skilja til hvers er af þeim ætlast? Hjá þessari stofnun á Suðurnesjum liggur fyrir stefnumótun, samþykkt af ráðherra, og liggja meira að segja fyrir upphæðir varðandi rekstur og uppbyggingu sem ráðherra sjálfur hefur skrifað undir. Hins vegar fylgja engir fjármunir.

Samkvæmt áðurnefndri framtíðarstefnumótun hefði á þessu ári og því næsta átt að leggja rúmar 200 millj. kr. í uppbyggingu. Til hennar renna hins vegar 12 millj. kr. þannig að það er lítið að marka undirskrift sumra hæstv. ráðherra.

Gagnrýni okkar í 1. minni hluta fjárlaganefndar hefur aðallega snúist um að fjárveitingar sem lagðar eru til í fjáraukalögum væru fyrirséðar við fjárlagavinnuna. Við höfum oft bent á það en á það hefur ekki verið hlustað. Þar nægir að nefna vanda framhaldsskólanna sem nú er að hluta viðurkenndur í fjárlagafrumvarpinu, fyrst í upphaflegu frumvarpi, með tillögu upp á 250 millj. kr. en síðan er í meðförum fjárlaganefndar viðbót upp á 200 millj. kr. Heildarviðbótarfjárveiting til framhaldsskólanna er því upp á 450 millj. kr.

Ég sagðist mundu fara sérstaklega í fjárveitingar til framhaldsskólana. Ég held að það sé full ástæða til þess vegna þess að ansi margir skólar — ég ætla ekki að taka tíma í að lesa þá alla upp, frú forseti — margir framhaldsskólar eru með mikinn halla bæði í upphafi árs og eins í lok árs. Maður veltir fyrir sér hve lengi sami skóli á að safna halla án þess að á því sé tekið með einhverjum hætti, annaðhvort með því að ráðamenn segi að þetta sé bara allt of dýrt og að minnka þurfi þjónustuna eða þá að þeir segi: Við gerum okkur grein fyrir því að við skömmtum naumt og stofnunin safnar upp halla á hverju einasta ári og því verður að breyta með því að auka fjárveitingar. Með einhverju móti verður að taka á þessu.

Þá komum við að hinum frægu pottum. Á þessum lista okkar, undir Menntamálaráðuneyti, er liður sem heitir Framhaldsskólar, almennt. Gleymum því ekki að framhaldsskólarnir eru allir meira og minna að drepast úr fjárskorti. En á þessum lið, Framhaldsskólar, almennt, eru í upphafi árs til 100 millj. kr. og í lok september er talið að inni á honum séu 151 millj. kr. Ég er hræddur um að ýmsir skólameistarar í framhaldsskólum hefðu viljað sjá einhverju af þeim peningum dreift úr þessum potti fyrr en núna í lok árs, því að enn er ekki búið að deila úr honum.

Hvað er gert í fjáraukalögunum? Jú, þeim 450 millj. kr. sem lagðar eru til framhaldsskólanna er bætt inn í þennan lið. Mér sýnist því sem að þar verði 600 millj. kr. fjárheimild í lok september. Af hverju í ósköpunum er ekki gengið í að skipta þessum potti út á framhaldsskólana? Af hverju í ósköpunum er það svo meðan við fáum í hendur upplýsingar um að sumir skólanna séu með 70–90% og jafnvel yfir 100% halla? Er þá svo erfitt að fara í gegnum skiptingu á þessum potti upp á 600 millj. kr.? Er það ekki krafa okkar í fjárlaganefnd, sem erum hluti af fjárveitingavaldinu, að við fáum eitthvað að vita um hvernig eigi að skipta þessum pottum? Eigum við ekki að hafa nein áhrif á þá skiptingu? Nei, jafnvel ekki fyrr en í janúar eða í lok ársins er farið að velta fyrir sér hver staða framhaldsskólanna hefur verið á árinu og reynt að skipta upp.

Maður óttast að hið sama gerist enn og aftur. Ég sé ekkert kerfi, enga kerfisbundna afgreiðslu á einu né neinu varðandi halla stofnana. Það hefur ekki verið gagnsæ leið til að deila út þessum potti og ég óttast að þetta verði svipað og maður hefur allt of oft séð í fjárveitingum og fjárlögum ríkisins, þ.e. geðþóttaákvarðanir.

Árinu fer að ljúka og það er ljóst að margir framhaldsskólar eru reknir með miklum halla. Sumir þeirra eiga við þann langa hala að etja sem ég nefndi hér. Við erum engu nær um það nú við lok nóvember, 1. desember á morgun, með hvaða hætti eigi að mæta vanda framhaldsskólanna og hvaða skóli eigi að fá hvað úr þeim 600 millj. kr. potti sem nú verður til.

Virðulegur forseti. Á þessu þingi hef ég talsvert gagnrýnt vinnubrögð við gerð fjárlaga og fjáraukalaga. Ég tel mig hafa fært gild rök fyrir þeirri gagnrýni og einnig hafa bent á hvað betur mætti fara. Ég trúi ekki öðru en að það sé einlægur vilji allra að vanda vinnubrögðin sem mest og að áætlanagerð frá einum tíma til annars verði sem nákvæmust.

Ég verð að viðurkenna að það fór léttur hrollur niður bakið á mér þegar fulltrúar fjármálaráðuneytisins voru í sinni síðustu heimsókn hjá fjárlaganefnd og sögðu, í framhaldi af því að við gagnrýndum hve seint þær upplýsingar lægju fyrir sem ég fór yfir áðan um stöðu einstakra stofnana, að það skipti ekki öllu máli þar sem staða stofnananna tengdist ekki beint fjárlagagerðinni. Eftir þær útskýringar skilur maður betur að ekki virðist hægt að áætla framlögin betur.

Það er viðtekin venja við alla áætlunargerð að taka tillit til nýjustu upplýsinga um stöðu og þróun kostnaðarliða. Í vandaðri áætlunargerð ber að skoða strax hvaða orsakir geti legið á bak við óvænt eða ófyrirséð útgjöld eða hækkanir einstakra liða og reyna að taka á vandanum þá þegar eða aðlaga áætlun að nýjum raunveruleika sem þá væri orðinn staðreynd.

Hvernig ætla menn að taka inn breyttar forsendur og aðstæður sem alltaf geta skapast, bæði vegna fyrirséðra og ófyrirséðra breytinga sem upp kunna að koma, ef ekki má skoða og staðreyna hvað um er að vera? Menn halda áfram að reka stofnanir, sem hafa verið reknar með viðvarandi halla í mörg undangengin ár án nokkurra breytinga í rekstri, þrátt fyrir að augljóst sé að hallareksturinn muni halda áfram. Ekki er skoðað hvort breyta eigi rekstrinum eða aðlaga kröfurnar að þeim fjármunum sem fyrir hendi eru eða þá að auka fjármuni til rekstrar, ef um lög- eða skyldubundin verkefni er að ræða. Þau verkefni kostar þá einfaldlega það mikið og rétt að viðurkenna það með fjárveitingum.

Nei, lenskan í íslenskri fjárlagagerð virðist að setja fram óraunhæfar fjárveitingar til verkefna til að sýna betri afkomu í fjárlagafrumvörpum og einnig til að reyna að þvinga rekstur stofnana inn í fjárlagastakk sem er allt of þröngt sniðinn. Menn viðurkenna síðan hluta vandans í fjáraukalögum án nokkurrar reglu að því er virðist og láta restina dragnast inn í næsta ár til að skekkja myndina áfram og gera rekstrarumhverfi margra stofnana ríkisins ekki bjóðandi frá fyrsta degi nýs fjárlagaárs.

Ef maður ætlaði að temja sér tungutak hæstv. utanríkisráðherra þá mundi maður segja að hér væri um ómengaða afturhaldsíhaldstittsmennsku að ræða. Þrátt fyrir milljarða kostnað við kaup á nýjum bókhaldskerfum fyrir ríkið virðist ekki nein von til þess að fjármálaráðuneytið breyti vinnubrögðum sínum við gerð fjárlaga þannig að við komumst nær því en nú er að fjalla um raunveruleg fjárlög í stað endurtekinna glansmynda sem ekki standast þegar til kastanna kemur.