131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[16:28]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Nú er komið að lokum 3. umr. um fjáraukalög fyrir árið 2004. Við munum þurfa að draga einhverja hluti í land við gerð svokallaðra lokafjárlaga sem koma hér sem eins konar uppgjörsfjárlög fyrir árið. En reynslan hefur sýnt á undaförnum árum að í þeim lokafjárlögum er það síðasta dregið í land sem hefur staðið út af við framkvæmd fjárlaga fyrir árið.

Hér hefur verið rætt allmikið um vinnubrögð við fjárlagagerðina og öryggi þeirra vinnubragða. Ég vil einmitt draga fram tillögur sem ég hef flutt á þingi um breytt vinnubrögð hvað varðar fjáraukalögin. Ég hef rakið það hér að fjárlögin eru samþykkt í árslok fyrir næsta ár og síðan gerist ekkert fyrr en þetta er aftur tekið upp með fjáraukalögum haustið eftir.

Ég hef lagt til að fjárlögin verði tekin upp að vori að afloknu vetrarþingi og fjáraukalög unnin með tilliti til þeirra breytinga sem eru gerðar á þinginu frá því að fjárlög eru samþykkt og fjáraukalög leiðrétt miðað við þær breytingar. Sömuleiðis yrði farið yfir breytta stöðu á gjalda- og tekjuhlið ríkissjóðs. Þetta ætti að vera síðasta verk þingsins áður en það fer heim á vorin. Síðan væri hægt að taka málið upp aftur og fjalla um fjáraukalög, taka upp að hausti þær breytingar sem á kunna að hafa orðið.

Með slíkum vinnubrögðum væru fjárlögin á hverjum tíma og ákvarðanir um fjárveitingar eða breytingar á fjárlögum teknar af þinginu. Við stöndum frammi fyrir því að í flestum tilvikum er búið að taka ákvarðanir um þær breytingar sem hér um ræðir. Þar hefur jafnvel verið lofað greiðslum án þess að þingið hafi þar komið að. Þau vinnubrögð falla raunar ekki að lögum.

Ef við færum yfir fjáraukalög að vori og aftur að hausti væri aðkoma þingsins tryggð. Með því móti hefðum við ekki staðið frammi fyrir því alvarlega ástandi í sumar er framhaldsskólana skorti nokkur hundruð milljóna króna til að geta tekið nemendur inn með eðlilegum hætti. Allt var komið í hreinustu vandræði. Það var reyndar vitað fyrir en haustið áður vildi ríkisstjórnin og meiri hluti hennar ekki viðurkenna það og lét framhaldsskólana fara inn í árið með allt of lágar fjárveitingar. Við munum umræðuna síðasta sumar þegar fjöldi nemenda, hundruð nemenda, gátu ekki fengið svar um skólavist vegna þess að framhaldsskólarnir bjuggu við svo mikið fjársvelti. Hefði verið tekið á þeim málum þegar síðastliðið vor hefði það ekki þurft að koma til.

Frú forseti. Vissulega er tekið á nokkrum vandamálum varðandi gjaldahlið einstakra stofnana og fjárlagaliða í fjáraukalögum en aðrar stofnanir og önnur verkefni munu send yfir áramótin með skuldir sem gera þeim örðugt að standa undir þeim verkefnum sem þeim eru falin á næsta ári. Það er ótækt að A-hluta stofnanir á vegum ríkisins skuli þurfa að hefja næsta ár með halla. Þetta á m.a. við um framhaldsskólana og sjúkrahúsin. Ég vil benda á að slík vinnubrögð ganga ekki.

Ég flyt fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs breytingartillögu við lokaafgreiðslu fjáraukalagafrumvarpsins, um að veitt verði aukið fjármagn til að styrkja stöðu sveitarfélaganna. Fjárhagsstaðan hjá nokkrum sveitarfélögum er mjög alvarleg og ríkinu ber skylda til að koma þar að. Það er ósvinna að beita þeirri sveltistefnu sem ríkisvaldið beitir sveitarfélög, einstök sveitarfélög eru hreinlega að kikna undan henni.

Þess vegna leggjum við til, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að bæta við fjármagni til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til úthlutunar í haust auk þess sem tekið verði á fjárhagsvanda sveitarfélaganna á næsta ári. Eitt brýnasta mál þingsins er að veita aukið fjármagn til sveitarfélaganna, leysa bráðavanda nokkurra sveitarfélaga sem nú standa frammi fyrir því að þurfa að skera niður þjónustu og selja bestu eignir sínar.

Herra forseti. Ég læt að lokum í ljós þá ósk mína að vinnubrögð við fjárlagagerðina verði betri en verði hefur í ár og einnig í fyrra.