131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Málefni aldraðra.

85. mál
[16:54]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í tilefni af ræðu hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur árétta að hér er einungis verið að tala um að hækka gjaldið til samræmis við áætlaðar verðlagsbreytingar og að hækkunin er 162 kr. á hvern gjaldanda. Það er lögbundið að hækkunin skuli fara þessa leið fyrir Alþingi og að gjaldið skuli fylgja verðlagi.

Hitt vil ég segja í tilefni af ræðu hv. þingmanns, og ekki síst breytingartillögunni sem þingmaðurinn hefur lagt fram, að í ákvæðinu eins og það er núna er gert ráð fyrir því að börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs séu undanþegnir gjaldinu. Það er líka heimild skattstjóra til að fella það niður á þeim sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum og eru undir sjötugu. Það stendur óbreytt.

Hv. þingmaður gerði grein fyrir því að eins og ákvæðið er er talað um að þeir skuli einnig undanþegnir gjaldinu sem hafa tekjuskattsstofn sem nemur í dag 855 þús., sem eru skattleysismörkin. Með þeim breytingum á skattalögunum sem stjórnarflokkarnir hafa mælt fyrir verða skattleysismörkin 1 millj. og 32 þús. í lok kjörtímabilsins, en heildarfjárhæð grunnlífeyris, tekjutryggingar og tekjutryggingarauki sem breytingartillaga hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttur mælir fyrir um nemur samtals 1 millj. og 13 þús. Markmiðum breytingartillögunnar verður því náð með þeim skattalækkunum sem nú liggja fyrir þinginu.

Þar af leiðandi sé ég ekki ástæðu til að styðja breytingartillöguna, vegna þess að með skattalækkuninni verða undanþegnar hærri tekjur en samanlögð fjárhæð grunnlífeyris, tekjutryggingar og tekjutryggingarauki nemur í dag.