131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Málefni aldraðra.

85. mál
[16:59]

Þuríður Backman (Vg):

Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð varðandi hið árlega frumvarp sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um málefni aldraðra og fjallar um framkvæmdasjóðinn og hækkun á nefskattinum sem frumvarpið tekur til.

Ég vil nefna að það er lögbundið að breytingar á gjaldskrá séu samþykktar á Alþingi. Hækkunin lýtur verðlagsbreytingum. Í ár er áætluð 162 kr. hækkun og er eingöngu verðlagsbreytingarhækkun, þannig að það sé alveg ljóst. Það er hægt að samþykkja verðlagshækkun svo lengi sem nefskatturinn er lagður á. Hann var jú settur á til þess að auðvelda frekari uppbyggingu á hjúkrunarheimilum og hjúkrunarþjónustu, samkvæmt lögum um málefni aldraðra. Það sem við höfum gagnrýnt í stjórnarandstöðunni er hvernig sjóðnum hefur verið úthlutað, hve stór hluti af tekjum sjóðsins hefur runnið í rekstur öldrunarþjónustunnar í stað þess að fara að mestu leyti í uppbyggingu.

Hv. formaður heilbrigðis- og trygginganefndar, Jónína Bjartmarz, hefur lýst þeirri breytingu sem gerð var á lögunum til að auðvelda einkarekstur í öldrunarþjónustunni og þátttöku sjóðsins í einkarekinni öldrunarþjónustu. Ég ætla ekki að fara út í það núna, sem að mörgu leyti er gagnrýnisvert, hve mikið öldrunarþjónustan er að færast yfir á hendur einkaaðila.

Varðandi það hve stór hluti af tekjum sjóðsins hefur farið í rekstur þá hefur orðið á breyting þar á á árinu 2004 eins og fram kemur í frumvarpinu. Nú er meira áætlað í framkvæmdir en var. En það má líka gagnrýna það að á yfirstandandi ári fór ekkert í viðhald. Það finna allar þær öldrunarstofnanir sem reknar eru í dag, að sá þáttur hefur dregist aftur úr og á mörgum stöðum þarf að gera stórátak í viðhaldi öldrunarstofnana.

Við leggjum síðan til að einstaklingum á strípuðum lífeyri, sem gerir rúmar 83 þús. kr. til einstæðings, verði sleppt við nefskattinn, eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir gerði góð skil. Við leggjum í raun til að frítekjumörkin hjá þessum einstaklingum verði hækkuð upp í 83 þús. kr., en frítekjurnar eru um 71 þús. kr. í dag. Þeir sem eru með tekjur þar fyrir ofan greiða skatta.

Hv. formaður nefndarinnar nefndi að markmiðið væri það sama og það má vel vera, þegar litið er til lengri tíma. En breytingartillagan felur í sér að strax verði reynt að hliðra til fyrir þá sem hafa lægstu tekjurnar, með tekjur undir framfærslukostnaði, sama hvort það eru atvinnulaust fólk, lífeyrisþegar eða aðrir sem af einhverjum ástæðum hafa þetta lágar tekjur, að þeim verði hlíft við þessum nefskatti. Það er mikilvægt að ef um nefskatt er að ræða, sama hvort það er í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skattur af tóbaki, að sá sérstaki skattur fari í þau verkefni sem honum er ætlað, í vel skilgreind verkefni en ekki í annan rekstur. Að öðru leyti eiga framlög í öldrunarþjónustu eða forvarnir, af því að ég nefndi nú áðan tóbakið, að vera greidd úr ríkissjóði.