131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Málefni aldraðra.

85. mál
[17:04]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil árétta það, í tilefni af ræðu hv. þm. Þuríðar Backman, að breytingartillagan sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir mælti fyrir gengur út á að þeir séu undanþegnir gjaldinu sem hafa tekjuskattsstofn sem nemur fjárhæð grunnlífeyris, tekjutryggingar og tekjutryggingarauka. Þetta gerir samtals 1.013 þús. á ári, þessir þrír bótaliðir. En eins og ákvæðið er núna er gert ráð fyrir því að þeir sem eru með 855 þús. kr. tekjur, í skattleysismörkum eða lægri tekjur, greiði ekki gjaldið. Með skattalækkunum ríkisstjórnarinnar, 8% hækkun persónuafsláttar og 4% lækkun tekjuskattsins náum við þessu markmiði, þá verða þeir sem hafa tekjur að 1.030 þús. kr. undanþegnir greiðslu gjaldsins.

Þess vegna er þessi breytingartillaga óþörf. Þetta gerist í áföngum en við lok kjörtímabilsins erum við búin að tryggja að ná því markmiði sem breytingartillagan felur í sér.