131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjald.

377. mál
[17:08]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki þurfti hæstv. fjármálaráðherra að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Hér er enn eitt frumvarpið í sarpinn á þinginu sem kveður á um hækkun á gjöldum og sköttum einstaklinga. Ég tel ástæðu til þess að fara nokkrum orðum um þetta mál.

Með frumvarpinu á að hækka gjöld á bifreiðaeigendur. Maður hefði haldið að nóg væri komið samt. Ríkið hefur verulega skatta af bifreiðaeigendum. Ég man ekki betur en að þar sé um 31 eða 32 milljarða kr. að ræða. Hér er verið að hækka bifreiðagjaldið sem kemur til viðbótar annarri skattlagningu sem við höfum farið í gegnum. Í gær voru t.d. aukatekjur ríkissjóðs hækkaðar, ef ég man rétt, um 200 millj. kr. Álögur á áfengi og tóbak voru hækkaðar um 320 millj. kr. og nú er verið að hækka bifreiðagjöldin um 120 millj. kr. Á einum sólahring eru þetta sennilega 600 millj. kr. eða 600–700 millj. kr. í auknum gjöldum og álögum, m.a. á bifreiðaeigendur.

Mér hefur fundist, virðulegi forseti, nóg komið af álögum á bifreiðaeigendur sem slíka. Við fórum nýlega í umræður við fjármálaráðherra um auknar tekjur ríkissjóðs í gegnum virðisaukaskatt af bensíni, m.a. af svindli og samráði olíufélaganna sem við sýndum fram á að hefði aukið virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs um 600 millj. kr. Af þeirri umræðu var ljóst að hæstv. ráðherra telur óþarft að skila því til baka til bifreiðaeigenda. Hann er kokhraustur og kemur inn með nýtt mál, hækkun á bifreiðagjöldum sem hækkar enn álögur á bifreiðaeigendur.

Í efnahags- og viðskiptanefnd er til umræðu annað mál sem enn eykur álögur á fólk, svokallað umsýslugjald sem rennur til Fasteignamats ríkisins. Það átti að vera tímabundið gjald á árunum 2000–2004 og renna út á þessu ári. Því átti að verja til að koma á koppinn Landsskrá fasteigna. En nú stendur til að framlengja það umsýslugjald næstu fjögur ár, næsta kjörtímabilið. Þar er um að ræða um 280 millj. kr. á hverju ári, þ.e. um 1.100–1.200 millj., virðulegi forseti, á næsta kjörtímabili til viðbótar þeim álögum sem fjallað hefur verið um síðustu daga. Ríkissjóður er því jafnt og þétt að hala inn með hækkunum fyrir þeim skattalækkunum sem hún ætlar út á næsta ári. Hún gerir það myndarlega og duglega eins og á síðasta ári, þegar skattahækkanir og gjöld og álögur á einstaklinga námu 3–4 milljörðum kr.

Þannig er það hjá þessari blessaðri ríkisstjórn. Hún gefur og tekur þannig að fólk á erfitt með að átta sig á hvernig það kemur nettó út úr skattalækkunum ríkisstjórnarinnar sem áformaðar eru út þetta kjörtímabil.

Það er líka ástæða til að skoða bifreiðagjaldið nánar af því að hér er lagt til að það hækki um 3,5%. Rökin, með leyfi forseta, eru eins og hér segir:

„Síðast var bifreiðagjald hækkað 1. janúar 2002. Bifreiðagjald hefur því ekki hækkað í samræmi við almenna verðlagsþróun á síðustu árum. Þannig hefur vísitala neysluverðs hækkað um tæp 7% frá þeim tíma. Hér er því lögð til ákveðin leiðrétting á því. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði 120 millj. kr. í auknar tekjur.“

Hækkun gjaldsins er réttlætt með því að það hafi ekki hækkað í langan tíma og einungis sé verið að færa það í samræmi við verðlagsþróun, virðulegi forseti. En er það svo? Er það aðeins hækkað í samræmi við verðlagsþróun? Ef við lítum á forsögu þessa máls þá var bifreiðagjald fyrst lagt á á árinu 1988. Það var þá 2 kr. á hvert kíló af eigin þyngd bifreiðar að 2.500 kílóum. Bifreiðagjaldið hefur frá árinu 2002 verið 6,60 kr. fyrir hvert kíló að 1.000 kílóum og 8,90 kr. á hvert kíló eigin þyngdar umfram það, allt að 3.000 kílóum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að gjaldið hækki í 6,83 á hvert kíló og í 9,21 kr. fyrir hvert kíló umfram það.

Þetta þýðir, ef við berum það við gjaldið eins og það var 1988, að ef bifreiðagjaldið hefði tekið mið af þróun verðlags frá 1988 þá væri það um 4,76 kr. fyrir hvert kíló af eigin þyngd bifreiðar. Með breytingunni sem lögð er til í frumvarpinu er því um 43% hækkun að ræða, virðulegi forseti, miðað við gjaldið eins og það var 1988. Það er því ekki hægt að vera að tala um að þetta sé bara einföld verðlagsuppfærsla.

Öfugt við það sem stendur í frumvarpinu þá hefur bifreiðagjaldið hækkað langt umfram almenna verðlagsþróun á síðustu árum. Hér er því ekki lögð til ákveðin leiðrétting, heldur hærri álögur, virðulegur forseti. Það er ekki hægt að líta öðruvísi á en að þetta séu hærri álögur, en ekki einföld verðlagsuppfærsla á gjaldinu.

Við getum líka skoðað hvers konar skattur er hér á ferðinni. Bifreiðagjaldið er í raun bara eignarskattur lagður á miðað við þyngd á bifreið í kílóum án tillits til verðmætis eða vélarstærðar. Skatturinn kemur því harðast niður á þeim sem eiga gamla, þunga og verðlitla bíla, og álagning eignarskatts sem hefur ekkert með verðmæti að gera er ranglát skattheimta. Bifreiðaeigendur borga eignarskatt af bílum sínum við árlega álagningu skatta og bifreiðagjaldið er líka á mjög gráu svæði hvað tvísköttun snertir, en bifreiðagjaldið rennur ekki til vega, umferðaröryggis eða bifreiðatengdra mála.

Ég held að nauðsynlegt sé, virðulegi forseti, að halda þessu til haga í umræðunni þegar lagt er fram frumvarp sem lætur lítið yfir sér og er einungis rökstutt með því að verið sé að færa það upp í samræmi við verðlagsþróun, en staðreyndin er sú, eins og ég hef rakið, að breytingin sem er lögð til felur í sér yfir 43% hækkun umfram verðlagsþróun frá því þetta gjald var fyrst lagt á 1988. Þetta er sú staðreynd í málinu sem við stöndum frammi fyrir.

Það er athyglisvert að við skulum í frumvarpi eftir frumvarpi frá hæstv. ráðherra á síðustu dögum — og guð einn veit hvort fleiri koma inn það sem eftir lifir af þinginu — hækka skatta og álögur á fólk á sama tíma og stjórnarflokkarnir reyna að láta líta svo út að þeir séu í góðvild gagnvart einstaklingunum að lækka skatta á þá.