131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[17:20]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Bifreiðagjaldið var hækkað meðvitað fyrir nokkrum árum en það hefur ekkert með þessa hækkun að gera, því hér er eingöngu um að ræða hækkun í hlutfalli við verðlagshækkanir. Og þar sem hækkunin er 3,5% í staðinn fyrir 7% sem verðlagið hefur hækkað um (Gripið fram í.) þá er þetta í rauninni skattalækkun upp á 3,5%.

Það má vel vera að hv. þingmaður skilji ekki það sem ég er að segja og henni finnist ég segja að svart sé hvítt og hvítt sé svart. En ég minni á að þegar verðbólgan var sem mest hér á landi — þetta veit fólk sem man þá tíma — þá var það þannig að ef eitthvað hækkaði ekki í verði þá lækkaði það að verðgildi. Það er nú bara svo einfalt. Ef hv. þingmaður man það ekki og skildi það aldrei, þá held ég að það sé ekki mitt vandamál.

Þess vegna leggja þingmenn svo mikla áherslu á að persónuafslátturinn sé hækkaður eins og verðlag, eins og hv. þingmaður hefur bent á hefur hann alltaf verið hækkaður í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga, sem ekki hafa alltaf staðist. Þess vegna hefur sá neikvæði skattur, nefskattur, ekki hækkað eins og verðlag í gegnum tíðina og minnst hækkaði hann og féll mest fyrstu tvö árin en þá var vinstri stjórn við völd. Þá kom aðalfallið í þeim neikvæða skatti sem er persónuafslátturinn. Það er svo merkilegt. Hann hefur nokkurn veginn haldið verðgildi sínu síðan 1992 eða 1993.

Ég undirstrika að um persónuafsláttinn og aðrar krónutölur í skattalögum gildir nákvæmlega það sama, það á að hækka það miðað við forsendur fjárlaga, annars er um að ræða um ómeðvitaða skattalækkun.