131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[17:22]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði varla að nenna hérna upp í stólinn til að svara hv. þingmanni en þegar hann fór að halda því fram að persónuafslátturinn hefði nokkurn veginn haldið verðgildi sínu síðan, hvað sagði hv. þingmaður? (HBl: 1992 eða 1993 eins og hv. þingmaður sagði.) 1992 eða 1993, þá er það auðvitað rangt. Ef við skoðum hvernig skattleysismörkin hafa þróast alveg frá 19… (Gripið fram í.) persónuafslátturinn og skattleysismörkin, hvernig þau hafa breyst á þessum tíma, þá er alveg ljóst að á þessum tíma frá 1988 til 1995 þá hélst það nokkurn veginn í hendur (PHB: Frá 1993–1995) Ég er að tala um 19… Hef ég orðið, virðulegi forseti? Ég er að tala um tímann frá 1988 til 1994, þá héldust skattleysismörkin, sem eru nú líka afleidd af persónuafslættinum, þá héldu þau nokkurn veginn verðgildi sínu miðað við launavísitölu alveg fram til ársins 1995. Þá byrjaði þetta allt (Gripið fram í.) að gliðna og nú er komið svo að skattleysismörkin eru 72 þús. kr., en ættu að vera 110 þús. kr. miðað við launavísitölu. Það er nú staðreyndin málsins.