131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[17:41]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og oft þegar fólk lendir í vandræðum með rökin þá fer það út um víðan völl, tekur eitthvað annað til eins og umsýslugjald fasteigna sem við getum rætt þegar þar að kemur, herra forseti. Ég vil ræða hérna um gjöld sem eru hækkuð vegna þess að krónutala rýrnar í verðbólgu og ég ætla að spyrja hv. þingmann enn einu sinni: Nú er 7% verðbólga búin að vera í tvö ár. Ákveðið gjald hefur ekki hækkað að krónutölu síðan þá, í síðastliðin tvö ár, er það ekki raunlækkun ef það gjald er ekki hækkað? Og ef það gjald er hækkað um 3,5% í 7% verðbólgu í tvö ár, er það ekki enn raunlækkun? Er það ekki lækkun á skattbyrði?

Ég ætla að reyna að fá hv. þingmann til að svara þessu en fara ekki út um víðan völl með allt skattkerfið undir.