131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[17:46]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal hélt því fram að sá þingmaður sem hér stendur hefði farið vísvitandi með ósannindi í máli sínu og vil ég mótmæla því algjörlega.

Það sem ég var að gera, hv. þm. Halldór Blöndal, var að hafa eftir þau rök sem annar hv. þm., Pétur Blöndal, fór með hér í stólnum á undan mér um að nauðsynlegt væri að hækka allar tekjur og gjöld til ríkissjóðs eftir verðlagi ef menn ætluðu að láta þau halda raungildi sínu. Um leið og hv. þm. kallaði fram í mál mitt leiðrétti ég mig snarlega og fór yfir það sem akkúrat í þessu frumvarpi stendur, að hér væri verið að hækka um 3,5% á sama tíma og vísitala neysluverðs hefði hækkað um tæp 7%.

Hv. þingmaður nefndi aukatekjurnar sem við samþykktum í gær og fór þar með alveg hárrétt mál, að það væri verið að hækka aukatekjur ríkissjóðs um 10%. Jafnframt fór hann yfir það að viðmiðunartölurnar sem miðað væri við væru frá 1997 og verðbólgan hefði verið 34% frá 1997. Það er ansi mikil verðbólga á ekki lengri tíma, en þarna fór hv. þingmaður með rangt mál vegna þess að stórum hluta af þessum gjöldum, aukatekjum ríkissjóðs sem verið var að hækka í gær um 10%, hafði áður verið breytt bæði á árinu 2001 og árið 2002 og sum þeirra voru frá árinu 2003. Verðbólgan hefur ekki verið 10% frá þeim tíma.

Með þessum rökum er þingmaðurinn einfaldlega að segja ósatt og þarna þarf að skoða hvaða gjöld það eru sem eru frá árinu 1997 og hver eru yngri. Ég fór yfir það í máli mínu í gær að stór hluti af þessum gjöldum, og ég las upp góðan hluta af þeim, hefðu verið lögð á á árinu 2001 og því er það ekki 34% sem miðað er við heldur mun minna.