131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[17:50]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að hv. þm. Halldór Blöndal sé að vitna í umræður í gær um mál sem hann hefur auðsjáanlega ekki hlustað neitt á varðandi aukatekjurnar. Það er rétt sem hv. þm. las upp að í athugasemdum við frumvarp fjármálaráðherra stendur að flest hver þessara aukagjalda hafi haldist óbreytt frá árinu 1997. (HBl: Eða lengur.) Eða lengur. Ég fór mjög vel yfir það í máli mínu í gær og rakti hér lagabreytingarnar sem orðið hafa 1998, 1999, 2000, 2001, 2002 og 2003 varðandi aukagjöld. Hvaða gjöld? Ég gaf mér ekki tíma í stuttri ræðu til þess að fara yfir gjöldin sem höfðu hækkað 1998 og 1999. Ég fór yfir gjöld sem höfðu hækkað 2000, 2001, 2002 og 2003.

Ég næ ekki hvernig menn skilja það í máli mínu hér að ég mundi vilja fella úr gildi aukatekjur ríkissjóðs. Það hef ég aldrei sagt og hvarflar ekki að mér en ég vil að við köllum hlutina, virðulegi forseti, réttum nöfnum. Aukatekjur, margar hverjar, eins og þær eru lagðar á eru ekkert annað en skattur. Þegar verið er að hækka þær á sama tíma og menn berja sér á brjóst og segjast vera að lækka skatta þá er það bara á móti þeirri skattalækkun sem verið er að kynna. Og mér svíður órétturinn sem þeir sem minni laun hafa eru beittir með því að vera að hækka álögur á þá til þess að færa yfir til þeirra sem meira hafa. Það er einmitt það sem ríkisstjórnin er að gera á árinu 2005. Ég veit að hún klórar í bakkann á árinu 2006 og árið 2007 með barnabótum en árið 2005 er það tekjuskattur og hátekjuskattur og ekkert annað.

Ég skil ósköp vel að hv. stjórnarþingmenn, sem lengi hafa verið stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar, þoli það ekki þegar maður stendur hér í pontu, bendir á, híar og segir: Hann er ekki í fötum. (Gripið fram í.)