131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:14]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er sorglegt að heyra enn einu sinni sömu setningarnar um að verið sé að hækka skatta þegar verið er að lækka þá. (Gripið fram í.) Nei, þetta er bara þreytandi. (Gripið fram í.)

Með stjórnarskrárbreytingunni 1995 var kveðið á um að ekki mætti breyta sköttum nema með lögum. Eftir það töldu menn að ekki væri hægt að hafa sjálfvirkar vísitölubreytingar á krónutölugjöldum í skattalögum. Eftir það þurfum við að hækka gjöldin á hverju ári með ákvörðun Alþingis, jafnt persónuafslátt sem bifreiðagjöld og fleira. Það er ákveðið þannig núna.

Hv. þingmaður hefur kynnst fjármálastarfsemi, veit hvað verðtrygging er og veit hvað verðlag og verðbólga er. Hann á að vita að upphæð sem er óbreytt í verðbólgu rýrnar að raungildi, menn geta keypt minna fyrir hana. (Gripið fram í: Fjárlagafrumvarpið rýrnar líka, nema verðlag lækki.) Nema verðlag lækki, já.

Í fjárlagafrumvarpinu eru ákveðnar forsendur um verðlagshækkun á næsta ári og út frá þeim er gengið. Gjaldið sem við ræðum hér hefur ekki hækkað í tvö ár. Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 7% og samt er gjaldið ekki hækkað nema um 3,5%. Ég spyr hv. þingmann: Er verið að hækka gjaldið að raungildi eða lækka það að raungildi? Ég fullyrði að það er verið að lækka það um 3,5% að raungildi. Ég vil fá svar við þessu.