131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:16]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvernig í ósköpunum getur það verið svo óskaplega mikilvægt að viðhalda álögum á bifreiðaeigendur þegar ríkissjóður hefur þegar fengið heimildir til að hækka gjöld á þá sömu gjaldendur á næsta ári um miklu hærri fjárhæð en hér um að tefla? Ég segi bara eins og er, að mér finnst að menn séu komnir út á undarlegar brautir hvað þetta varðar, þegar menn geta ekki horft á gjaldendahópinn og velt því fyrir sér hvað ríkissjóður er að gera gagnvart honum. Þetta gerist á sama tíma og bifreiðaeigendur borga hærri orkugjöld en þeir hafa líklega nokkru sinni gert.

Ég held því ekki fram að gjaldið hafi ekki rýrnað. En ríkissjóður hagnast fram yfir verðlagsforsendur. Það er 7% hækkun núna á næsta ári í fjárlögunum en raunverulega eru 3,5% verðlagsforsendur fyrir hækkunum. Hverjir eiga að fá þann mismun?

Mér finnst hv. þm. kominn á hálan ís í málflutningi sínum ef hann þarf að halda sig við þetta eina mál og getur ekki þolað að bent sé á að ríkissjóður fær fjármuni frá þeim hópi sem hér um ræðir með fleiri sköttum en þessum.