131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:21]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er örugglega einhverjum sem finnst skrýtið að stjórnarþingmenn reyni að útskýra skattamál fyrir þingmönnum Samfylkingarinnar. En ég held að það sé þess virði og þetta er allt að koma. Ég vil nota tækifærið og óska hv. þm. Jóhanni Ársælssyni til hamingju með svörin við spurningum hv. þm. Péturs Blöndals. Það vísar á gott.

Ég held að málið snúist um að fara hægt í gegnum þetta með hv. þingmönnum Samfylkingarinnar lið fyrir lið. Ég er sannfærður um, virðulegi forseti, að ef við eyðum nógu miklum tíma og förum nógu skýrt í gegnum þetta þá fari þetta í gegn hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar. Ég held að það gerist. (GÁS: Þú verður að skilja eitthvað í því sjálfur.)

Ég ætla hins vegar að spyrja hv. þm. Jóhann Ársælsson að einu, vegna þess að hér hefur Samfylkingin talað mikið um hækkun skatta og gott betur. Þeir hafa tilgreint það sem þeir telja hækkun skatta. Þar er m.a. afnám sérstakrar ívilnunar vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Ég vildi gjarnan að hv. þm. Jóhann Ársælsson útskýrði fyrir þingheimi og þeim sem fylgjast með, virðulegi forseti, hvernig afnám þessarar ívilnunar getur verið skattahækkun (GÁS: Ætlaðir þú ekki að útskýra þetta?) því að ... (LB: Þú ætlaðir að fara hægt í gegnum þetta og útskýra þetta. Hvað, ertu hættur?)

Virðulegi forseti. Hér er kallað fram og æmt frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar að það sé slæmt að ég skuli spyrja því að ég eigi að útskýra þetta. Þetta er leið til að læra, að spyrja fyrst þá aðila sem halda þessu fram. Ég ætla fyrst að sjá hver skilningur þeirra er og svo skulum við fylgja því eftir. En ég vil gjarnan fá svar við þessu, hv. þingmaður, hvernig þetta má teljast skattahækkun.