131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:23]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér er nokk sama hvað menn kalla þetta afnám ívilnunarinnar. Það hlýtur þó að þýða að menn missi af einhverju sem þeir hafa fram að því fengið.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort það þurfi ekki að fara hægt í gegnum það fyrir hv. þingmann með hvaða hætti menn leggja skatta á og að ástæða sé til að gera það rólega, að menn rifji upp hvaða skatta þeir eru búnir að leggja á áður en þeir ákveða að hækka aðra eða leggja á nýja skatta. Þegar um er að ræða sömu hópana, bifreiðaeigendur í þessu tilfelli, þá ættu menn að fara vel yfir stöðuna hjá viðkomandi hópi. Hefur ríkið verið að leggja nýjar álögur á þann hóp og stendur til að nýjar álögur á hópana komi til framkvæmda? Hver er almenn staða bifreiðaeigenda t.d. núna? Hún gefur ekki tilefni til að ríkissjóður leggi til sérstakrar atlögu við þá og reyndar reka nánast allir í landinu bifreiðar.

Það að hv. þingmenn hafi gleymt því að hér voru sett lög sem þýða hækkanir á bifreiðaeigendur á næsta ári, þegar þeir koma með þessa skattahækkun að auki, bendir til að þeir þurfi að setjast öðru hvoru niður og fara rólega yfir það sem þeir hafa gert í skattamálum.