131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:25]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi skilið hv. þingmann rétt, að hann viðurkenndi að svokölluð skattahækkun sem Samfylkingin hefur talað um er engin skattahækkun. Hún er að sjálfsögðu engin skattahækkun. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir að vera það heiðarlegur að gangast við því.

Þetta er enn eitt dæmið um rangfærslur og útúrsnúninga hjá þingmönnum Samfylkingarinnar í umræðum um skattamál. (Gripið fram í.) Hér hefur staðið upp úr hverjum þingmanni Samfylkingarinnar á fætur öðrum að um sé að ræða skattahækkanir og m.a. vitnað í þetta afnám … (Gripið fram í.) Fyrirgefðu, hvað sagði hv. þingmaður? (JÁ: Skiptir breytingin engu máli?) Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort þessi breyting skipti engu máli. Það var enginn að tala um það. Hér komu menn upp, hver á fætur öðrum og töluðu um skattahækkanir.

En, virðulegi forseti, þeir hafa gengist við því að þeir hafi farið rangt með og ekki kallað hlutina réttum nöfnum. Þeir eru að blekkja meðvitað og þannig hafa menn gengið fram við þessa umræðu af Samfylkingarinnar hálfu. Það má öllum vera ljóst eftir svar hv. þm. Jóhanns Ársælssonar.