131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:27]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst það mikilvægt eins og hv. þingmanni, að hlutirnir séu kallaðir réttum nöfnum. Það breytir ekki því að þessi breyting sem hv. þingmaður gerði að umræðuefni skiptir máli fyrir fólk. (GÞÞ: Þú kallaðir það skattahækkun.) Hæstv. forseti. Ég nefndi þetta mál reyndar aldrei í ræðu minni. (GÞÞ: Fyrirgefðu, félagar þínir.)

Ég held hins vegar að það sé rétt að halda sér við dagskrármálið sem hér er til umræðu, þ.e. hækkun á álögum á bifreiðaeigendur. Ég tel satt að segja að í hv. nefnd ættu menn að fara nákvæmlega yfir það hvaða hækkanir muni koma til framkvæmda á bifreiðaeigendur á næstu mánuðum og hverjar hafi komið til framkvæmda á síðustu mánuðum. Þannig sjá menn í raun hvað ríkisstjórnin er að gera varðandi álögur á bifreiðaeigendur. Ég tel fulla ástæðu til þess að það verði gert. Þetta er ekki sjóður sem hægt er að sækja í endalaust. Þarna er einn af stærstu útgjaldaliðum fjölskyldnanna í landinu og það á ekki að umgangast þennan skattahóp, þ.e. það fólk sem rekur bifreið, með þeim hætti að gæta ekki að því hvaða gjöld voru lögð á síðast þegar menn hækka álögur á ný.