131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Bifreiðagjöld.

377. mál
[18:49]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði þegar ég hóf andsvör mín að það væri bara spurning um að fara hægt í gegnum þetta og þá mundi þetta fara alveg í gegn hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar og það er að koma á daginn. Nú er það upplýst að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, sem vitnaði í ræður mínar í borgarstjórn Reykjavíkur um leikskólamál, hefur aldrei hlustað á neinar ræður, a.m.k. ekki mínar, í Ráðhúsi Reykjavíkur og er búinn að lofa því alveg sérstaklega að gera það aldrei.

Hvers vegna hv. þingmanni datt í hug að nefna R-listann og hækkanir á þjónustugjöldum og hækkanir á skatti í þessari umræðu sem rökstuðning í máli sínu er algjörlega óskiljanlegt. Við erum ekkert að tala um það þegar hækkanir eru á þjónustugjöldum hjá R-listanum, eitthvað sem fylgir verðlagi, virðulegi forseti. Við erum ekkert þar. En þegar við erum að tala um skattamál, þá koma menn þar glaðir og keikir og segja: Nú ætlum við að ræna tekjuskattslækkun ríkisstjórnarinnar, og eru ekkert að fara neitt í felur með það, hækka bara skattana hvort sem það er útsvar eða fasteignagjald.

Bara til að upplýsa þig, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, þá eru fasteignagjöldin búin að hækka um 91% að raungildi, 25 þús. kr. á hvern einasta einstakling frá því að R-listinn tók við, fyrst og fremst út af beinum skattahækkunum. (Gripið fram í.) Og við skulum, virðulegi forseti, endilega bera saman stjórn Reykjavíkurborgar, R-listans, og ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þar er skýr munur. Svo getum við farið ekki bara í skatta og þjónustugjöld, virðulegi forseti, heldur líka í skuldamálin. Það er annar þáttur.