131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[10:32]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Skuldir íslenskra heimila og fyrirtækja hafa aukist gríðarlega undanfarin missiri og eru þær mun hærri hér en í nágrannalöndunum. Íslensk heimili skulda núna um 800 milljarða kr. samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands, þ.e. sem nemur allri árlegri lánsframleiðslunni. Til samanburðar kostar allt heilbrigðiskerfið minna en einn tíunda þessarar upphæðar. Hvert einasta mannsbarn á Íslandi skuldar því tæplega 3 millj. kr. en skuldir heimilanna voru rúmlega helmingi lægri fyrir fimm árum.

Skuldir heimilanna voru 20% af ráðstöfunartekjum árið 1980 en í árslok 2003 var þetta hlutfall komið upp í 180%. Það hafði nífaldast á tímabilinu. Íslensk fyrirtæki skulda um 1.300 milljarða kr. og hafa skuldirnar meira en tvöfaldast á fimm árum. Alþjóðlegur samanburður sýnir að skuldir íslenskra fyrirtækja eru með þeim hæstu sem þekkjast meðal þróaðra ríkja heims. Heildarskuldir íslenska þjóðarbúsins eru rúmlega 2.400 milljarðar kr. sem er þreföld landsframleiðslan. Þar af eru erlendar skuldir um helmingur af heildarskuldunum og er Ísland eitt skuldugasta iðnríki í heimi. Greiðslubyrði af erlendum lánum hefur aukist gífurlega mikið. Greiðslur til útlanda í vexti og afborganir af erlendum lánum kosta rúmar 6 kr. af hverjum 10 kr. sem þjóðin aflar í útflutningstekjum.

Herra forseti. Þetta eru ótrúlegar tölur en réttar. 60% af útflutningstekjum okkar fara í afborganir og vexti af erlendum lánum. Um 1% hækkun á erlendum vöxtum leiðir til um 12 milljarða kr. hækkunar á vaxtagreiðslum en fyrir þá upphæð mætti t.d. reka alla framhaldsskóla landsins. Innlend útlán innlánsstofnana í ár jukust um 70 milljarða kr. í október sl. Nýju íbúðarlánin námu í lok október um 55 milljörðum kr. en til samanburðar kostar rekstur alls Landspítalans um helming þessarar upphæðar.

Í Financial Times var Ísland sérstaklega nefnt sem dæmi um land þar sem erlend lán banka til að fjármagna lántökur heimila draga úr lánshæfi á alþjóðlegum mörkuðum. Í blaðinu kemur einnig fram að hækkandi skuldir heimilanna séu einn þeirra þátta sem hægi á hagvexti. Allar þessar skuldatölur eru í sögulegu hámarki. Skuldir heimila og fyrirtækja hafa aldrei verið hærri og hafa aldrei hækkað jafnört. Það er því ríkt tilefni til að hafa áhyggjur. Þótt hér sé um að ræða skuldir heimila og fyrirtækja en ekki opinberra aðila geta stjórnvöld ekki litið fram hjá þeim. Ríkisvaldinu ber skylda til að stuðla að heilbrigði í efnahagskerfinu. Of mikil skuldsetning lýsir ekki heilbrigðu hagkerfi.

Nú getur sá tími runnið upp að fólk skuldi meira en sem nemur verðmæti fasteignar sinnar en við þekkjum mýmörg dæmi slíks varðandi bifreiðakaup. Of miklar skuldir hafa sundrað mjög mörgum heimilum og mörg sorgarsagan hefur orðið vegna of mikilla skulda. Okkur stjórnmálamönnum ber að vara við óæskilegri þróun. Það hefur ríkisstjórnin ekki gert. Hún hefur gert hið þveröfuga og ýtt undir væntingar og skuldasöfnun. Ríkisstjórnin gerir lítið úr varnaðarorðum óháðra aðila og hefur haldið væntingum í samfélaginu uppi með fagurgala, oflofi og sjálfshóli. Peningamálastefna Seðlabankans virðist hafa lítil áhrif.

Nú er verðbólgan á uppleið, þenslan mikil og litlar eða engar mótvægisaðgerðir í ríkisfjármálum. Stefna stjórnvalda ýtir því undir aukna neyslu og hvetur almenning til að verja æ stærri hluta ráðstöfunartekna sinna í vaxtagreiðslur vegna neyslu líðandi stundar. Hið svokallaða góðæri sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa stært sig af er einfaldlega fengið að láni. Sé reyndar litið til meðalhagvaxtar hér á landi á árunum 1991–2001 sést að hann er nákvæmlega sá sami og meðalhagvöxtur OECD-ríkjanna. Á þessum 10 árum höfum við því verið um miðja deild en ekki í toppbaráttunni. Aukning neysluútgjalda heimila á sér ekki stoð í auknum kaupmætti en er fjármögnuð með lántökum, erlendum og innlendum, og þetta hafa Samtök atvinnulífsins bent á.

Það er því full ástæða til að leita svara hjá hæstv. forsætisráðherra um hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessari gríðarlegu skuldasöfnun íslenskra heimila og fyrirtækja. Einnig er spurt hvort hæstv. forsætisráðherra hugi að einhverjum aðgerðum til að sporna við þessari þróun.