131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[10:42]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Fyrir rétt tæpu ári hóf ég umræðu um mikla útlánaaukningu og vaxandi erlendar skuldir þjóðarbúsins. Til svara var þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson. Þá var mest til umræðu það mikla erlenda lánsfé sem bankarnir höfðu dælt inn í landið, m.a. til að fjármagna skuldsettar yfirtökur í atvinnulífinu, eignabreytingar í sjávarútvegi og fleira. 300 milljarðar í nýju erlendu lánsfé höfðu þá streymt inn í hagkerfið á undangengnu ári en á þessu ári hafa bankarnir snúið sér að heimilunum af auknum krafti.

Skuldir bæði fyrirtækja og heimila á Íslandi eru með því mesta sem þekkist í heiminum og skuldir þjóðarbúsins í heild út á við eru ískyggilega miklar. Þær þarf að greiða með einum eða öðrum hætti, hæstv. forsætisráðherra, og þó að gagnlegt sé að leita skýringa á þessum skuldum eru þær samt til staðar. Skuldirnar hverfa ekki þó að menn skilji af hvaða rótum þær eru sprottnar. Þær þarf að borga samt. Mér finnast hæstv. ráðherrar og hæstv. ríkisstjórn hafa mikla tilhneigingu til að reyna að fegra þetta ástand fyrir sér. Það er talað um góðkynja viðskiptahalla og annað rugl af því tagi.

Viðskiptahalli upp á 500 milljarða frá og með árinu í ár og til og með 2010 er gríðarlegt vandamál þegar hann bætist ofan á þær miklu skuldir sem fyrir eru. Í niðurlagsorðum skýrslu BSRB um þessi skuldamál segir, og ég held að okkur sé hollt að hafa það í huga:

„Hækkandi skuldir hafa því leitt til þess að stór hluti launþega hefur nú þegar ráðstafað hluta af launum sínum fyrir fram og því eru kollsteypur í efnahagslífinu nú líklegri en áður ef vextir fara hækkandi að nýju og aðstæður breytast til hins verra í hagkerfinu.“

Þetta gildir um heimili, fyrirtæki og þjóðarbúið íslenska í heild út á við.