131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[10:49]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er staðreynd að skuldir heimila á Íslandi eru með því mesta sem þekkist í heiminum. Skuldir nema 180% af ráðstöfunartekjum. Þetta er hættulegt mark. Við lifum í eyðsluhvetjandi þjóðfélagi þar sem lífsgæðakapphlaupið er í algleymingi og aðgengi að lánsfé er nánast óheft. Lánastofnanir eru sífellt að auglýsa vöru sína sem er peningur á kostakjörum, eftir því sem helst má skilja, og síðan þarf ekki að hafa áhyggjur af því að greiða hann til baka. Þjónustufulltrúi þinn í bankanum sér um það.

Ótrúlega miklar yfirdráttarskuldir sýna svo að ekki verður um villst hvernig hin mikla umframeyðsla er fjármögnuð. Yfirdráttarlán einstaklinga sem liggja einhvers staðar kringum 60 milljarða kr. segja allt sem segja þarf um þær ógöngur sem margir einstaklingar og heimili eru lent í. Nýjustu tilboðin á lánamarkaði um allt að 100% lán til íbúðakaupa eru síðan nýjasta varan sem skuldurum stendur til boða. Ekkert mál. Kaupið það sem ykkur langar í, við fjármögnum og þú borgar seinna.

Hin mikla hækkun íbúðaverðs í kjölfar þessara nýju lána sýnir síðan hvernig aukið magn peninga í umferð skrúfar upp verð og eftir standa íbúðakaupendur með hærri skuldir en áður fyrir sömu vöru. Ríkið fitnar sem aldrei fyrr með því að skattleggja þetta allt saman í formi stimpilgjalda sem greiða þarf af öllu saman.

Mikill fjöldi aðfararbeiðna og fjárnáms hjá einstaklingum sýnir að það getur verið hált á lánasvellinu og nauðsynlegt að umgangast gylliboð lánastofnana af varúð. Í þenslu eins og nú er er hætta á að verðbólgan fari af stað. Það munar um hvert prósent sem skuldir hækka við verðbólguna. Heimilin í landinu eiga mikið undir stöðugleika í efnahagsmálum. Það stendur því upp á ríkisstjórnina að fara varlega og draga eins og hægt er úr hækkun ýmissa gjalda sem hún hefur með að gera. Það hefur hún ekki gert undanfarna daga.