131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[10:53]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum alvarlega skuldasöfnun þjóðarbúsins, heimila og fyrirtækja. Það er rétt að velta því fyrir sér hvað hefur verið að gerast undanfarið varðandi lántökur heimilanna en lántökur í erlendum gjaldmiðlum hafa farið mjög vaxandi, reyndar gríðarlega vaxandi á síðustu mánuðum.

Skuldir heimilanna í erlendri mynt hafa nær tvöfaldast frá því í júní en þá voru þær 10.643 millj. kr. en í september voru þær komnar í 16 milljarða og í október í 23,5 milljarða, þ.e. á milli september og október hækka erlendar skuldir heimilanna um 7 milljarða kr. og tvöfaldast á fjögurra mánaða tímabili.

Hvað mundi gerast ef gengið lækkaði og íslenska krónan veiktist á ný? Við búum nú við hæsta gengi íslensku krónunnar í meira en áratug og lægstu erlendu vexti sem hafa gilt um langt árabil. Við vitum að það mun ekki standa áfram. Hvað gerist ef íslenska krónan veikist um 10, 20 eða 30% sem fjármálasérfræðingar segja að muni gerast á næstu mánuðum eða missirum? Þetta mun gerast samhliða því að erlendar vaxtahækkanir munu koma líka yfir þannig að greiðslubyrði heimilanna vegna þessara erlendu lána getur vaxið um tugi prósentna á nokkrum mánuðum.

Með vaxtabreytingu úr 2 til 4% og gengisbreytingu um 10% mun mánaðarleg greiðslubyrði aukast um meira en 50%. Ég tel, herra forseti, að hér sé um alvarlega hluti að ræða og maður veltir fyrir sér hvernig ráðgjöf bankanna sem hafa nánast fjárhæð heimilanna í höndum sér er háttað. Auðvitað firra bankarnir sig ábyrgð með því að láta heimilin taka erlend lán. En hvernig er sú ábyrgð sem þeir eru farnir að veita?