131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:03]

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Fyrir aldarfjórðungi var tekin upp verðtrygging fjárskuldbindinga á Íslandi sem leiddi til þess að skömmtunarstjórar lánsfjár þurftu að líta á lántakendur sem viðskiptamenn. Þessi bylting gjörbreytti íslensku samfélagi. Hún lagði grunninn að miklu frelsi í viðskiptum manna en í henni fólst líka að lántakendur og lánveitendur þurftu að taka ábyrgð á gjörðum sínum með öðrum hætti en áður var.

Í ljósi 25 ára reynslu og þegar rætt er um skuldastöðu heimilanna á Íslandi er vert að hafa nokkur atriði í huga. Í fyrsta lagi eins og forsætisráðherra benti á veldur aldurssamsetning þjóðarinnar því að það er eðlilegt að skuldir heimilanna séu hærri hér en hjá nágrannaþjóðunum.

Í öðru lagi ríkir hér á landi samstaða um sjálfseignarstefnu í húsnæðismálum.

Í þriðja lagi má nefna gríðarlega uppbyggingu húsnæðis síðustu 100 árin, úr nánast engu í einhverja mestu fermetratölu á mann í heiminum. Þetta tiltölulega nýja húsnæði er því eðlilega veðsett fyrir háar fjárhæðir.

Í fjórða lagi má svo nefna landfræðilega stöðu landsins sem leiðir til þess að húsnæðið þarf að vera dýrara og stærra þar sem við eyðum meiri tíma innan dyra en annars staðar þekkist.

Herra forseti. Lækkun verðbólgunnar og hagstjórn síðustu ára hefur leitt til meiri stöðugleika en lengi hefur þekkst í íslensku viðskiptalífi. Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar munu einnig leiða til aukins kaupmáttar almennings og um leið gera þær heimilum auðveldara að standa undir afborgunum lána. Þótt ég fagni frelsinu og auknum möguleikum sem felast í hagsældinni bið ég menn að gleyma sér ekki. Í þessu sambandi fannst mér það bæði ánægjulegt og ábyrgt þegar Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans, lét hafa eftir sér varnaðarorð þegar bankinn tilkynnti að hann hygðist bjóða upp á 100% lán til húsnæðiskaupa.

Ég undrast líka að þessi varnaðarorð eða áminning skuli ekki hafa verið meira áberandi. Þetta segi ég vegna þess að þegar við, þ.e. mín kynslóð, veðsetjum eignir okkar og tökum há lán til að eignast húsnæði haustið 2004 erum við líka að ráðstafa tíma okkar og möguleikum í lífinu, í sumum tilvikum allan okkar starfstíma á vinnumarkaðnum.

Ég fagna breytingum sem orðnar eru á íslenskum fjármálamarkaði í kjölfar farsællar efnahagsstjórnar en geri orð bankastjórans að mínum og hvet lántakendur til að passa vel upp á frelsi sitt svo að það snúist ekki upp í andhverfu sína.