131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[11:27]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við erum að ræða breytingar á lögum frá 2002. Þau eru í eðli sínu þannig að búast má við sífelldum breytingum á þeim, árlega raunar, og ekki undan því komist vegna þess að það er þingið sem á að ákveða þær fjárhæðir sem hér er um að ræða.

Ég hef ekki athugasemdir að sinni við þessar gjaldskrárbreytingar með einni undantekningu en yfir þær verður auðvitað farið í umhverfisnefnd og þeir reikningar skoðaðir sem þar verða væntanlega lagðir fram.

Það er merkilegt við þessa umferð breytinga á lögum um úrvinnslugjald að það er umhverfisráðherra sem flytur frumvarpið og umhverfisnefnd sem um það fjallar í stað fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptanefndar sem var á síðasta þingi. Hæstv. umhverfisráðherra skýrði það svo að það væri vegna þess að hér væri um efnislegar breytingar að ræða en ekki einungis breytingar á gjaldskrá. Það má deila hins vegar um hvor leiðin er heppilegri í þessu. Upphæðirnar ráðast ekki af sömu rökum og eiga við yfirleitt hjá fjármálaráðherra heldur ráðast af kostnaði eða eiga að gera það og breytingarnar eru því á fagsviði umhverfisráðherrans og umhverfisnefndarinnar. Við skulum sjá til hvað gerist síðar í þessu en það er auðvitað sjálfsagt að nefndin eigi samstarf við efnahags- og viðskiptanefnd um þetta mál ef þess er óskað, enda leggur umhverfisráðherra málið fram í samráði við fjármálaráðherrann.

Ég vil segja að þótt umhverfisráðherrann hafi núna málið í sínum höndum verður að gera kröfu til þess að upplýsingar um áhrif þess á efnahaginn og fjárhag þeirra sem fyrir verða séu skýrar og mér þykir svo ekki vera í umsögn fjárlagaskrifstofunnar um þetta frumvarp. Ég vek athygli á því í tilefni af orðum hæstv. umhverfisráðherra og orðaskiptum hennar við hv. þm. Össur Skarphéðinsson að vissulega er gert ráð fyrir nokkurri lækkun á tekjum af þessu á næsta ári en síðan er gert ráð fyrir hækkun frá og með árinu 2006, eins og hér stendur. Auðvitað þurfum við að fá betri skýringar á þessu og áhrifum þess á verðlag í landinu og á skuldir heimilanna sem voru ræddar í þaula áðan.

Það verður að bíða nefndarinnar heyrist mér á hæstv. umhverfisráðherra en farið verður fram á það auðvitað þar.

Ég vil aðeins tæpa á nokkrum atriðum í þessu frumvarpi sem auðvitað er alltæknilegt. Fyrst vil ég aðeins fara yfir bílamálin og leggja þar fram spurningu eða a.m.k. einhvers konar beiðni um skýringu. Það er breytingin á tímanum sem ég velti fyrir mér. Í frumvarpinu er lagt til í c-lið 2. gr. að úrvinnslugjald falli niður eftir að hafa verið borgað í 15 ár en í niðurlagi 5. gr. núverandi laga eru ákvæði um full 15 ár frá skráningu ökutækisins. Í athugasemdum við greinina segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta er gert vegna þess að í ljós hefur komið að um 40% af afskráðum bifreiðum falla ekki inn í kerfið þar sem þær voru nýskráðar fyrir árið 1988 en eðlilegt er að einnig verði tekið á þessum bifreiðum.“ — Þetta er sérkennilegt orðalag, að það sé eðlilegt að tekið verði á þessum bifreiðum. Ég skil ekki alveg hvað það þýðir.

Hæstv. ráðherra upplýsti í framsöguræðunni að þetta ákvæði hafi verið sett til þess að ná afskráningu á helming þeirra 29 þús. bifreiða þar sem þær séu í raun taldar aflagðar, ónýtar eða að þeim hafi verið fargað þótt númerin liggi enn þá inni. Ég reikna þá með að um sé að ræða bifreiðar frá 1978–1988. Gallinn við þessa hugsun er sá að ef það er rétt að helmingurinn sé ekki í notkun eða ekki til er helmingurinn enn þá til og væntanlega í notkun, þá u.þ.b. 14.500 bifreiðar ef taka má mark á tölunni 29 þús. Það sem hér er að gerast er að það á að gera eigendum þessara 14.500 bifreiða að greiða gjald sem þeir væntanlega gera oftar en einu sinni því að sú regla að aðeins þurfi að greiða einu sinni til að fá skilagjald er væntanlega sett fram til að ná í hina bílana. Þar með er verið að leggja nýtt gjald á töluverðan hóp fólks, þann sem á þessar 14.500 bifreiðar.

Hvaða fólk er það sem á bifreiðar sem eru framleiddar milli 1978 og 1988? Ég veit ekkert um það og óska um það upplýsinga ef hæstv. ráðherra hefur þær. Ég geri samt ráð fyrir því að það sé þá annars vegar einhver hópur sem er að rækta fornbíl og bíður eftir að bifreiðin verði 25 ára. Mér finnst ekki líklegt að sá hópur sé mjög stór. Ef ég man rétt frá þessum árum eru þetta ekki mjög merk ár í bifreiðasögunni. Þetta eru japönsku og kóresku bílarnir sem mér finnst fyrir fram frekar ólíklegt að verði vinsælir fornbílar. Hinn hópurinn er þá væntanlega þeir sem eiga bílana til að nota þá. Mér finnst ekki stórmannlegt að gera þann hóp núna að gjaldendum því að ég ímynda mér að það séu ekki breiðu bökin í samfélaginu sem keyra um á bílum framleiddum 1978–1988.

Það getur vel verið að hæstv. umhverfisráðherra hafi betri upplýsingar um þetta og geti skýrt fyrir okkur af hverju núna þarf að fara í þennan hóp. Kannski er það vegna þess að ríkisstjórnin hefur, eins og við sjáum á undanförnum dögum sérstaklega í þinginu, ætlað sér að ná inn fyrir skattalækkununum sem lofað er með öðrum hætti. Hún gerði það í fyrra og gerir það svo aftur núna og reynir hverja smugu til þess. Það eru háskólastúdentar og ýmislegt fólk sem fundið er til þess, öryrkjar auðvitað sem hafa verið sviknir um sínar 500 millj. samkvæmt sérstöku samkomulagi við einn af hæstv. ráðherrum, reyndar fleiri af hæstv. ráðherrum. Núna eru það eigendur bifreiða sem framleiddar voru á tímabilinu frá 1978–1988. Mér finnst þetta heldur óviðkunnanlegt.

Spurningin er auðvitað síðan um það hvort þessi lækkun úrvinnslugjalds sem hér er gert ráð fyrir, úr 520 í 350 kr. árlega, byggist á því að skattstofninn sé núna breiðari. Við sjáum eðlilega engar skýringar á því í frumvarpinu eða greinargerð með því en fáum væntanlega í nefndinni. Er eitthvert sérstakt hagræði í því að bæta þessum eigendum 14.500 bíla frá 15–25 ára við sem þar með afsaki lækkunina? Er e.t.v. um það að ræða að verið sé að leggja sérstakt gjald á þennan hóp sem sleppt var hins vegar árið 2002? Enn langar mig að spyrja þá sem hafa lengri þingsögu en ég: Hver voru rökin til þess að því var sleppt þá og hvað hefur síðan breyst? Það verður auðvitað að rökstyðja vel þessa breytingu eftir aðeins tveggja ára gildistíma laganna og með betri hætti en þeim að „eðlilegt [sé] að einnig verði tekið á þessum bifreiðum“. Ég sé enga sérstaka ástæðu til að það sé eðlilegt nú en hafi ekki verið þá.

Ég ætla að taka undir ákvæðið um fornbílana og af því að ég er ekki gamalkunnugur þessum lögum hefði ég haldið að það væri inni en það er auðvitað sjálfsagt að það sé þannig og í samræmi við tilhögun bifreiðagjalda. Af þeim á auðvitað að vera búið að borga nægilega mikið úrvinnslugjald þegar fram í sækir fyrir utan tæknilegt óhagræði í þeirri innheimtu að hafa eitt gjald á þeim en ekki annað.

Ég fagna því að kominn er nokkur gangur í umbúðamálin. Í frumvarpi sem flutt var í fyrra og var auðvitað efnislegt líka fyrir utan tæknina var gert ráð fyrir ótímabundinni frestun á umbúðunum. Umhverfisnefnd sætti sig hins vegar ekki við það og setti þennan tímafrest, 1. janúar 2005, sem síðan var samþykktur í vor. Nú á að auka tímann til 1. september og ég held að eftir atvikum sé hægt að sætta sig við það. Hæstv. umhverfisráðherra sagði frá þeim ákvæðum lagafrumvarpsins að gjaldtakan hæfist að nokkru leyti fyrr og dagsetningin 1. september bendir til þess að ekki eigi að fresta þessu öllu lengur því að þing er þá ekki saman komið að nýju. Ég hef í fljótu bragði engar athugasemdir við aðferðafræðina á bak við þetta, sýnist þetta vera vel unnið. Það þarf auðvitað samt að skoða betur í nefndinni.

Fróðlegar upplýsingar koma fram í greinargerðinni um umbúðirnar og minnir mann á það að góður fræðimaður og þjóðfélagsrýnir, Hörður Bergmann, skrifaði bók sem hét einmitt Umbúðaþjóðfélagið. Þó að hún hafi kannski ekki fjallað einkum um umbúðir um vöru er það nokkuð glæfralegt dæmi um nútímann að við skulum eyða hér að líkum 27 þús. tonnum á ári í umbúðir. Það eru 93 kíló á mann á ári. Maður sér þetta fyrir framan sig: Þetta er mitt framlag til heimsmenningarinnar og til umhverfismála í heiminum, 93 kíló, fjögurra manna fjölskylda 372 kíló árlega. Spurning hvort fjölskyldan geti komið þessu fyrir inni hjá sér, og það á hverju ári. Ef við söfnuðum þessu upp sjálf og hefðum hvert sinn haug, sem væri kannski ráð, mundi maður sennilega minnka neysluna og biðja um aðra hluti. Það er auðvitað það sem við þurfum í framtíðinni að gera og vonandi stuðlar þetta frumvarp að því með nokkrum hætti að minnka þessar umbúðir, að leita allra mögulegra leiða til þess að neysla okkar geti farið þannig fram að umbúðir hlaðist ekki upp og verði ekki til frekar en það að við séum að búa til flókið kerfi um úrvinnslu og skilagjald á þær.

Ég ætla ekki að hafa þetta mál lengra en hlýt að spyrja ráðherrann í tilefni af því að hér er um pappa-, pappírs- og plastumbúðir að ræða: Hvað með pappírinn almennt? Það eru engin ákvæði um pappír í þessu frumvarpi nema þegar hann er umbúðir. Nú er pappír aðeins meira, hann myndar stofn í vörunni sjálfri og þar er einkum um prentgögn að ræða. Þetta er vissulega viðkvæmt mál vegna menningarlegs og lýðræðislegs gildis bóka, dagblaða og tímarita en við þurfum líka að ræða það. Eins og við vitum er sú hefð í þessu landi að við fleygjum ekki bókum eftir að við erum búin að lesa þær einu sinni, heldur eru þær geymdar að mestu leyti. Á dagblöð lítum við öðruvísi. Um dagblöð gærdagsins ortu Rolling Stones á sínum tíma á þann hátt sem ég hygg að sé niðurstaða okkar í nútímanum, að dagblöð gærdagsins skipti litlu máli og þeim hendum við alla jafna. Við sáum að umbúðirnar eru 93 kíló á mann á ári og ef við bætum dagblöðunum við hygg ég að þunginn verði talsvert meiri. Þetta er mál sem við þurfum að ræða í fullri alvöru, hvernig eigi að koma þeim pappír fyrir í því ágæta kerfi sem við erum hér að búa til.

Um veiðarfæri í gerviefnum tek ég undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem talaði áðan um nokkuð furðulegt langlundargeð sem þessari atvinnugrein hefur verið sýnt. Þetta er þó að gerast núna þótt fresturinn hafi verið lengdur. Því ber að fagna.

Út af fyrir sig er ekkert á móti þeirri lausn sem lögð er til í frumvarpinu, svartolíulausninni, og mér virðist að í lagatextanum sé gengið tryggilega frá þeim hlutum. Verður ekki annað úr frumvarpstextanum lesið. Þar er öruggt eftirlit Úrvinnslusjóðs tiltekið og svo búið um hnúta að væntanlega verður af því. Það á að innheimta umsýslugjald og útgerðarmenn eru ekki líklegur hópur til að sætta sig við slíkt gjald nema eitthvað komi á móti. Mér sýnist nokkuð vel búið að þessu.

Ég vil spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort hugmyndir séu um frekara andlag sem fara ætti þessa leið. Í athugasemdum við frumvarpið er nefnt væntanlegt frumvarp um raf- og rafeindabúnað sem menn gera ráð fyrir að sé um samið, og ég spyr: Er eitthvað fleira slíkt á ferðinni? Þetta þarf alls ekki að vera slæm lausn sé eftirlitið tryggt.

Um rafhlöður er aðeins fjallað í frumvarpinu og minnst á að þær skila sér illa. Ég held að það sé eitt af þeim málum sem við þurfum að spekúlera í að koma öðruvísi fyrir. Þetta eru hlutir sem falla til á heimilum að miklu leyti og ég held að yfirvöld hafi nokkuð brugðist, kynning sé lítil á því að rafhlöðum beri að skila og skilastaðir eru ekki augljósir. Eitthvað er um að menn geti farið með þetta í næstu búð en það er ekki mjög náttúrulegt ferli. Ég held að við ættum að hugsa þetta mál betur og hugsanlega ætti að taka upp, a.m.k. í einhvern tíma, skilagjald eins og er á drykkjarumbúðum. Það mundi örva heimilin til dáða og koma mönnum upp á þá venju að sjálfsagt sé að skila rafhlöðum en fleygja þeim ekki eða láta þær með öðrum hætti eiga sig.

Samfylkingin gerði í upphafi athugasemd við þessi lög, árið 2002. Alvarlegustu athugasemdirnar voru við skipan stjórnar í Úrvinnslusjóðinn og ég held að þær haldi fullu gildi sínu vegna þess að það virðist vera eitthvert munstur í umhverfisráðuneytinu og kannski víðar að í stjórnum slíkra sjóða sé heppilegast að hafa, fyrir utan ráðherramennina, menn frá sveitarfélögum og atvinnurekendum, þannig sé komin einhver þríliða sem vel dugi. Við þetta var gerð athugasemd 2002 og verður gerð athugasemd líka í nefndinni og við 2. umr. Slík athugasemd var gerð reyndar í þessu svokallaða hollusturáði sem hér á að fara að breyta. Ekki er gert ráð fyrir fulltrúum neytenda og almannasamtaka, svo sem Alþýðusambandsins eða Neytendasamtakanna, og það er auðvitað spurning um samræmi við Árósasamninginn sem gerir ráð fyrir áhrifum almennings á öllum sviðum umhverfismála. Hann hefur ekki verið staðfestur en við þurfum samt að taka við honum eftir hinni ágætu Evrópuleið sem sér okkur fyrir þeim réttarbótum sem ráðherrarnir eru tregir að færa inn.

Að þessari athugasemd slepptri eru þessi lög í samræmi við kjarnann í stefnu Samfylkingarinnar um sjálfbæra þróun í umhverfisvænu samfélagi þar sem hver og einn ber sína ábyrgð, hefur sín réttindi en líka sínar skyldur, skyldur við sig og sína, við samfélag sitt og eftirkomendurna. Þetta frumvarp styður flokkurinn þess vegna í öllum höfuðatriðum og fulltrúar hans í umhverfisnefnd hyggjast greiða því för eftir megni í gegnum nefndina og síðan þingið nú fyrir jólin.