131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[11:46]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald. Ég vil byrja á því að gagnrýna það hversu seint þetta mál er fram komið. Ég tel að öll tilefni hafi verið til að málið kæmi fyrr inn í þingið því að reynsla okkar í umhverfisnefndinni er sú að umfjöllun um þessi mál eru afar flókin og tyrfin svo að ekki sé meira sagt.

Það var gagnrýnt fyrir nákvæmlega ári þegar hæstv. fjármálaráðherra Geir Haarde mælti fyrir sams konar frumvarpi að það væri seint fram komið. Þá var verið að ýta á þingmenn um að hraða afgreiðslu málsins í nefndum sem þá voru tvær, efnahags- og viðskiptanefnd og umhverfisnefnd. Það eru alveg sömu tilefni til gagnrýni hér og nú og jafnvel enn meiri því að hér eru viðameiri breytingar lagðar til en við vorum að vinna að fyrir ári.

Það er auðvitað rétt sem hv. fyrri ræðumaður sagði, hv. þm. Mörður Árnason, mál sem þetta er auðvitað lýsandi fyrir það samfélag sem við búum í, það neyslubrjálæði sem er til staðar í samfélaginu og það hvernig löggjafinn hefur varla haft við í þeim efnum að setja löggjöf sem taki á þeim vandamálum sem neyslukapphlaupið skapar. Gífurlega mikinn fróðleik er að finna um úrgangsmál og förgunarmál á vef Sorpu og í ársskýrslu Sorpu. Þar eru magntölur sem eru hreint með ólíkindum. Þegar hv. þm. Mörður Árnason reynir að ímynda sér hér fyrir framan okkur 93 kíló af umbúðum sem liggi eftir hvern einasta Íslending á ári er það í sjálfu sér einföld mynd að setja fyrir framan sig en það eru fleiri mjög skarpar og athyglisverðar myndir sem má draga upp af þessum málum ef þau eru skoðuð heildstætt. Það er ekki einasta að við skiljum eftir okkur þetta umbúðamagn heldur er gífurlega mikið magn af hlutum sem við köstum, bara venjuleg heimili að ekki sé talað um fyrirtækin í landinu, á hverju einasta ári. Það má segja að víða sé enn pottur brotinn í þessum úrgangs- og förgunarmálum okkar. Þar vil ég t.d. nefna förgun sláturúrgangs, förgun og meðferð kælimiðla, söfnun þeirra og rafeindabúnað. Þetta eru allt málaflokkar sem við verðum að taka til rækilegrar skoðunar og ég treysti að verið sé að skoða af alvöru í umhverfisráðuneytinu.

Það verður líka að segjast eins og er að ástandið í þessum málum er víða mjög bágborið úti um landið. Þó að byggðasamlagið Sorpa sem starfar á höfuðborgarsvæðinu sé búið að ná ákveðnum tökum á því sem hér gerist verður ekki hið sama sagt um allt landið. Það er mjög mikilvægt að þessum málaflokki sé vel sinnt í umhverfisráðuneytinu og ég geri ráð fyrir því að umhverfisnefnd Alþingis vilji fá að vita nánar um ástand þessara mála núna þegar við fáum tækifæri til þess og tökum þetta mál inn í nefnd á nefndadögum sem fram undan eru.

Síðan almennt um þetta frumvarp. Ég fagna því að hæstv. umhverfisráðherra skuli mæla fyrir því enda hef ég óskað þess. Þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti á síðasta þingi fyrir sams konar frumvarpi varðandi gjaldabreytingar og frestun á ákveðnum ákvæðum sem höfðu verið í lögunum frá 2002 óskaði ég eftir því að umhverfisnefnd fengi málið til umfjöllunar og það gekk eftir. Ástæðan var sú að hæstv. fjármálaráðherra lagði til efnisbreytingar á málinu, efnisbreytingar sem höfðu á sínum tíma komið frá umhverfisnefnd sjálfri. Að frumkvæði umhverfisnefndar voru sett ákveðin tímamörk á skil og úrvinnslugjald veiðarfæranna og líka á samsettar pappaumbúðir, umbúðir utan af mjólk og slíku. Umhverfisnefnd var samhljóma í áliti sínu þegar lögin voru upphaflega sett og þessi ákvæði inn í þau. Það kom í ljós í fyrra þegar við fjölluðum um málið í umhverfisnefnd Alþingis að enn var öll umhverfisnefnd samdóma í því áliti sínu að ekki bæri að fresta ótímabundið gildistökuákvæðum varðandi úrvinnslugjald á samsettar pappaumbúðir. Sömuleiðis var umhverfisnefnd í fyrra alveg á einu máli um það að útvegurinn fengi ákveðinn tíma til að laga sig að þessum lögum, fengi ákveðna frestun, það var sem sé séð í gegnum fingur sér við útgerðarmenn fyrir ári og nú er enn verið að biðja um meira en hálft ár í frest fyrir útvegsmenn til að fara að lögum sem sett voru 2002. Ég verð að lýsa því yfir, hæstv. forseti, að mér finnst það ekki tilhlýðilegt. Ég skil ekki að umhverfisráðuneytið skuli ekki geta staðið betur í ístaðinu gagnvart þessum öflugu hagsmunaaðilum og að hingað inn komi árlega tillaga um að fresta því að úrvinnslugjaldið og veiðarfærin taki gildi.

Ég tel að umhverfisnefnd hafi talað afar skýrt í þeim pappírum sem liggja fyrir, bæði nefndaráliti frá síðasta ári, frá desember 2003, og eins í álitum sínum frá því árinu þar áður. Ég tel engin tilefni til að veita aftur svona langan frest, sérstaklega ekki hvað varðar þessi gjöld á veiðarfærin.

Þetta verður auðvitað að skoða gaumgæfilega í umhverfisnefnd núna og ég geri ráð fyrir að menn hafi sama áhuga á þessum málum þar eins og verið hefur á undanförnum árum. Við vitum hvað til okkar friðar heyrir í þessum efnum þá örfáu klukkutíma sem við fáum, umhverfisnefndin, til að funda á nefndadögunum sem fram undan eru.

Ég geri líka ráð fyrir að þar verði gerðar athugasemdir við skilgreiningarnar í frumvarpinu um flokkun umbúða og skilgreiningu á ólíkum umbúðum. Ég verð að segja að ég hef sjaldan séð jafnknosaða lýsingu, jafnsamansúrrað málfar og þegar verið er að lýsa söluumbúðum eða grunnumbúðum, safnumbúðum og flutningsumbúðum. Ég hef fullan skilning á því hversu erfitt er að smíða þau nýyrði sem þarf oft og tíðum í svona lagaskilgreiningum en ég tel að það hljóti að vera hægt að vanda betur til verka en hér er gert. Ég fullyrði að fyrir mér er þetta þvílíkt torf að ég sé ekki að það sé gagnsætt á einn eða annan hátt hverju verið er að lýsa. Ég tel að nefndin komi til með að reyna með hjálp góðra manna (Gripið fram í.) — það er mikið mannval og fræðimenn á sviði íslensku í nefndinni þannig að nefndin kemur áreiðanlega til með að fara ofan í saumana á þessu. Það er alveg nauðsynlegt þegar svona skilgreiningar eru settar í lög að venjulegt fólk geti gert sér í hugarlund hvað við er átt. Ég tel tæpast að svo sé þegar þessi texti sem nú stendur í frumvarpinu er lesinn.

Varðandi þá möguleika sem opnaðir eru í 8. gr. laganna, að fyrirtækjum og atvinnugreinum sé „heimilt að semja sín á milli um ráðstafanir til að tryggja úrvinnslu úrgangs vegna svartolíu og veiðarfæra úr gerviefnum“, vil ég líka setja ákveðna fyrirvara þar um. Ég tel að umhverfisnefnd þurfi að fara verulega gaumgæfilega yfir þetta ákvæði þó að ágætir samningar hafi náðst varðandi svartolíuna. Ég viðurkenni að það virðist vera kerfi sem fúnkerar ágætlega eftir því sem við best vitum en ég er ekki alveg sannfærð um það að óathugðu máli að slíkt komi til með að fúnkera jafn vel varðandi veiðarfærin. Við erum komin með úrvinnslugjald á heyrúlluplastið og það er farið að innheimtast í miklu magni. Ég tel að þessi veiðarfæramál þurfi að skoðast alveg sérstaklega og ætla ekki að úttala mig um það hér hvort ég sjái það mögulega gerast á þeim nótum sem hér er lagt til í breytingartillögu við 8. gr.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara nánar út í einstök atriði frumvarpsins en ég nú hef gert. Ég legg einungis áherslu á það að hér er um viðamikið mál að ræða. Umhverfisráðuneytið hefur auðvitað unnið að þessu stöðugt síðan lögin voru sett af því að hér er um nýjan og margslunginn málaflokk að ræða. Ég tel þó til vansa að Alþingi Íslendinga skuli fá mál af þessu tagi svona seint inn og að okkur sé gert að vinna þetta á örfáum dögum, reyndar örfáum klukkutímum, mál sem ætti að þurfa að taka miklu lengri tíma vegna þess að hér þarf að vanda vel verkið.