131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[12:02]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir góð svör og sérstaklega það að hún tók undir það sem ég sagði um að þær hagrænu aðgerðir í umhverfisþágu sem eiga að leiða til þess að menn hætti að reka þá bíla þar sem númerin hafa verið lögð inn og klári sína hluti gagnvart kerfinu bitni líka á þeim sem eiga bíla frá 1978–1988 og eru að keyra þá um göturnar og þjóðvegina.

Nú er það þannig að við erum sammála um það, yfir hið pólitíska litróf sem betur fer, að taka upp þessar hagrænu aðgerðir í umhverfisþágu. Það er eðlilegt að það knýi menn til að vernda umhverfið, menga minna o.s.frv. en við verðum að passa okkur á því að þær bitni ekki á þeim sem þær eiga ekki að bitna á. Í þessu tilviki er það þannig að árið 2002 var sleppt þeim hópi sem átti bíla eldri en 15 ára. Það er auðvitað sólarlagsmál að þetta smám saman renni út og ég sé enga ástæðu til að skattleggja þennan hóp manna nema þá vegna hinnar almennu skattlagningarstefnu ríkisstjórnarinnar sem er að reyna að vinna sér inn fyrir kreddukenndum skattalækkunaráformum sínum. Ég vil hreinlega verja þennan hóp og bara bið um að hann verði látinn í friði. Eins og ég sagði áðan eru þetta sennilega ekki mjög breið bök, bökin á þeim sem eiga bíla sem eru 15–25 ára gamlir.